08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í D-deild Alþingistíðinda. (4326)

139. mál, dragnótaveiði í Faxaflóa

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja fáein orð í þessu sambandi og vitna til frekari sönnunar því, hve varhugaverðar þessar veiðar eru, dragnótaveiðar í Faxaflóa. Mér virtist á svörum hæstv. ráðh. hér áðan, að það liggi nú ljóst fyrir. Þessar veiðar voru upphaflega leyfðar í tilraunaskyni. Nú sýnist mér kominn tími til þess að takmarka þær aftur í tilraunaskyni og jafnvel stöðva þær alveg. Já, ég vil í þessu sambandi minna á skýrslu, sem Útvegsmannafélag Akraness hefur látið gera og birt hefur verið í blöðum, um ýsuafla landróðrabáta á Akranesi á haustvertíðunum 1960–1969. Þar kemur í ljós, að ískyggileg þróun hefur orðið á ýsustofninum í Faxaflóa. En skýrslan er svo hljóðandi, ég stikla aðeins á nokkrum árum, sem hún nær yfir:

Árið 1960 samsvarar ýsuaflinn 2.5 tonnum í róðri, 1963 hækkar hann í 3.3, 1966 fer hann niður í 2, og núna, 1969, er hann kominn í 0.8. Útvegsmenn segja í þessu sambandi, að það sé enginn vafi á því, að dragnótin og síðar trollið eigi sök á þessu, og þeir telja, að þessi veiðarfæri eigi alveg að banna, enda viðurkennt, að Faxaflói sé ein mesta uppeldisstöð ýsunnar. Og þeir spyrja jafnframt, hverjir stjórni þessu háttalagi. Er það Hafrannsóknastofnunin eða einhver annar aðili? Og þeir geta þess að lokum, að svo til vonlaust sé að gera út á línu frá Akranesi vegna hreinnar ördeyðu, og þeir kenna áðurnefndri þróun um þetta. Þetta vildi ég gjarnan að fram kæmi við umr. um þetta mál.