08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í D-deild Alþingistíðinda. (4327)

139. mál, dragnótaveiði í Faxaflóa

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem fram kom í svari hæstv. ráðh., sem gaf mér tilefni til að fara hér í ræðustól, en það var sú yfirlýsing hans, ef ég hef tekið rétt eftir, eða sú stefnumörkun, að heimabátar frá svæðum hér við Reykjanes ættu að fá forgang til rækjuveiða á miðunum, sem nú hafa fundizt við Eldey. Það, sem ég vildi spyrja hæstv. ráðh. um, er það, hvort þarna sé um stefnumörkun að ræða, sem beri að líta þannig á, að ef rækjumið finnast í námunda við aðrar verstöðvar eða útgerðarstaði, þá muni þessi regla einnig ná til þeirra staða, að heimabátar þaðan hafi þá sérstakan forgang til þeirra veiðisvæða, sem þar kynnu að finnast.