08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í D-deild Alþingistíðinda. (4346)

338. mál, vaxtakjör Seðlabankans

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Sá munur, sem er á framkvæmd endurkaupa á afurðavíxlum sjávarútvegs og landbúnaðar, á að engu leyti rót sína að rekja til tregðu Seðlabankans til þess að láta þann vaxtamun, sem er á endurkeyptum víxlum fyrir útflutningsafurðir og aðrar afurðir, koma þegar í stað til góða þeim útflytjendum, sem hlut eiga að máli. Seðlabankinn væri á morgun reiðubúinn til þess að láta vaxtamismuninn koma til framkvæmda strax gagnvart öllum aðilum, ef það væri framkvæmanlegt. En það er ekki á hans valdi að gera það framkvæmanlegt. Ástæðan til þess, að sjávarútvegurinn, einnig vinnslufyrirtæki hans, njóta hinna hagstæðu vaxta Seðlabankans á útflutningsvíxlum, er einfaldlega sú, að allir aðilar í sjávarútvegi gera þegar í stað eftir útflutning grein fyrir útflutningnum, þ. e. skila útflutningsskýrslum og öðrum nauðsynlegum skilríkjum í sambandi við útflutninginn. Þetta gerir landbúnaðurinn því miður ekki, og er ekki við Seðlabankann að sakast, heldur þá aðila, sem eiga aðild að útflutningi landbúnaðarafurðanna. Eins og ég sagði í svari mínu, er í sambandi við endurkaup á landbúnaðarvöruvíxlum ekki greint á milli þess, sem fer til sölu innanlands, og þess, sem fer til útflutnings. Og ég sakast þar ekki um við neinn. Ég hygg, að það væri ákaflega erfitt í framkvæmd að gera það þegar í stað. En ef hv. þm. getur aðstoðað útflytjendur landbúnaðarafurða eða landbúnaðarframleiðendur við það að finna út nýja aðferð í þessu efni, þá er mér óhætt að segja, að þá stendur ekki á Seðlabankanum að taka tillit til skynsamlegra aðferða í því og láta þá framleiðendur landbúnaðarvara, sem flytja út, njóta hinna hagstæðu vaxta þegar í stað. Það get ég fullvissað hv. þm. og hv. þingheim um.

Sem sagt, ástæðan til þessa fyrirkomulags, sem er alveg rétt hjá hv. þm., að er óhagstæðara útflytjendum landbúnaðarafurða en útflytjendum sjávarafurða, á eingöngu rót sína að rekja til þess, að engin framkvæmanleg till. hefur komið fram af hálfu landbúnaðarframleiðenda um annað fyrirkomulag en það, sem við hefur verið haft á þessu.

Þm. gat um það, að hann þekkti sútunarframleiðanda, sem ekki hefði fengið endurgreiðslu á hinum hagstæðu vöxtum. Hann á rétt á slíkri endurgreiðslu, ef um útflutning hefur verið að ræða, og hafi hann ekki fengið hana, þá er á því einhver önnur skýring en sú, að Seðlabankinn hafi tregðazt við að láta hann njóta hinna hagstæðu vaxta. Seðlabankinn endurgreiðir vaxtamismuninn á innlendum endurkaupavíxlum og útlendum endurkaupavíxlum samstundis og fyrir hann eru lögð þau gögn, sem allir eru sammála um, að nauðsynleg séu, til þess að hægt sé að veita þá vaxtaívilnun, sem útflutningsafurðunum er veitt.