08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í D-deild Alþingistíðinda. (4349)

339. mál, póstgíróþjónusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. um póstgíróþjónustu. Í núgildandi póstlögum nr. 31 frá 12. febr. 1940 er póststjórninni veitt heimild til að taka að sér póstgíróþjónustu hér á landi. Þetta póstgírókerfi hefur nú verið tekið upp í flestöllum löndum í Evrópu. Með þessu kerfi er hægt að fækka beinum peningasendingum, peningagreiðslum, en sama markmiði er náð með bókhaldslegum millifærslum. Til eru tvenns konar gíró, þ. e. svo kallað póstgíró og bankagíró. Hefur póstgíró verið talið mun öflugra og fljótvirkara, vegna þess að póstþjónustan hefur haft stærra og betra dreifingarkerfi en viðskiptabankarnir. Þó virðist geta komizt á samstarf á milli póstþjónustunnar og viðskiptabankanna. Póstgíró er góð þjónusta fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Ef við tökum lítið dæmi, þá þekkja allir þær tafir og þau óþægindi og þann tíma, sem það tekur að greiða reikninga hingað og þangað. Með póstgíróþjónustunni geta menn komið á einn stað og látið póstþjónustuna annast greiðslu til hinna ýmsu fyrirtækja. Þetta fyrirtæki er orðið svo vinsælt á Norðurlöndum, að fólk er alls staðar að tala um þetta. Það hefur verið mikið rætt og ritað um póstgíróþjónustuna hér á Íslandi, og við vorum að vona, að póstgíróstarfsemin gæti byrjað núna á þessu ári, en á einhverju hefur strandað. En þar sem þetta er góð þjónusta, þá er sjálfsagt, að við tökum þessa þjónustu upp. Ég hef leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp.:

„Hafa verið gerðar áætlanir um, að póst- og símamálastjórnin taki upp póstgíróþjónustu, og ef svo er, hvenær getur hún hafizt?“