15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í D-deild Alþingistíðinda. (4363)

333. mál, Fiskiræktarsjóður

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það er álit margra, að hér á landi séu betri skilyrði en víðast annars staðar til fiskræktar og fiskeldis í ám og vötnum. Miðað við þá reynslu, sem hefur fengizt annars staðar, ætti fiskrækt hér að geta orðið arðvænleg og stór atvinnugrein, ef rétt er haldið á málum. Slíkt er þó útilokað, nema fjármagn sé fyrir hendi til framkvæmda. Þetta sjónarmið viðurkenndi Alþ. að nokkru á síðasta þingi, þegar lax- og silungslögin voru til meðferðar, en samkv. 90. gr. þeirra laga var ákveðið að stofna sérstakan fiskræktarsjóð, er veitti lán eða styrki til fiskeldis og fiskræktar í landinu. Um tekjuöflun sjóðsins segir svo í þessari grein:

„Stofna skal sjóð, er nefnist Fiskræktarsjóður, til stuðnings fiskrækt og fiskeldi í landinu. Tekjur sjóðsins eru: a) Fjárveiting úr ríkissjóði. b) Gjald á skírum veiðitekjum, 2%, er innheimtist af veiðifélögum. c) Tekjuafgangur fiskeldisstöðva ríkisins, eftir ákvörðun ráðh. d) 3%o af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu, sem selja orku til almennings. e) Aðrar tekjur.“

Samkv. næstu gr. á svo að veita lán og styrki úr Fiskræktarsjóði til framkvæmda, er lúta að fiskrækt eða fiskeldi, enda samþykki veiðimálastjóri tilhögun framkvæmda, þær séu gerðar undir eftirliti hans og hann mæli með styrkveitingum. Þessar framkvæmdir eiga að njóta styrks, sem nemi allt að 1/3 af áætluðum kostnaði. Það eru í fyrsta tagi fiskvegir og önnur meiri háttar mannvirki, er stefna að því að auka fiskför um vatn. Í öðru lagi klakhús og eldisstöðvar.

Í framhaldi af þessu er spurt: Hve miklar verða tekjur Fiskræktarsjóðs á árinu 1971, og hve mikil lán þykir líklegt, að hægt verði að veita úr sjóðnum á árinu?