15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í D-deild Alþingistíðinda. (4371)

335. mál, ísingarhætta

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir skýrslu hans um aðgerðir í þessu máli, og það hefur komið í ljós af svari ráðh., að menn hafa gefið þessu máli gaum núna á þessu hausti og borið ráð sín saman um það, hvað hægt væri að gera. Þm. Vestf. hafa hreyft málinu mjög í þann sama mund og ég bar fram þessa fsp., en það er alllangt síðan hún var lögð fram á skrifstofu Alþ. Menn hafa þannig verið að hugsa um þessi mál á liðnu hausti og dómsmrn. leitað nokkurra úrræða, sem ég hygg, að séu líkleg til að koma að gagni, bægja e. t. v. slysum frá, eða það viljum við a. m. k. vona.

Mér skildist, að undirtektir Breta við þeirri málaleitan, að við hefðum e. t. v. fulltrúa um borð í gæzluskipi þeirra, hefðu verið góðar, en ég skildi ekki atveg til fulls eða man það ekki, hvort það mál hefði fengið afgreiðslu eða kæmi til framkvæmda núna upp úr áramótum með hinu nýja skipi. En ég vænti þess, að svo sé.

Ég held, að þessi breyting á veðurþjónustunni sé til stórra bóta, því að vissulega hefur ekki verið nægilega sinnt þessu sérstaka háskasvæði við íslenzku ströndina með nógu vakandi veðurþjónustu. Það var einn skipstjóri á fundi með mér á s.l. hausti, vestfirzkur skipstjóri, sem tók það sem dæmi, og hann hafði það úr sinni dagbók, að hann tilnefndi dag, þar sem gefin hefði verið út veðurspá frá íslenzku veðurstofunni um gott veðurútlit. Síðan kom skynditilkynning frá brezka eftirlitsskipinu um það, að snögg veðrabreyting hefði orðið og brezku skipin mættu vænta áhlaupsveðurs innan mjög skamms tíma. Og aðvaranirnar dundu á þeim allt kvöldið, en íslenzka veðurstofan hélt áfram að útvarpa sýknt og heilagt góðu veðurútliti án nokkurrar breytingar allt fram á síðustu stund þennan dag. Skipstjórinn tilgreindi þennan dag nákvæmlega, og ég trúi því, að hann hafi farið þarna með rétt mál, og þetta sýnir, að þarna gat veðurþjónustan, sem ekki hafði við rannsóknir að styðjast með nógu skömmu millibili, bókstaflega verið háskaleg og villt um fyrir sjómönnum. En nú hefur einmitt verið bætt úr með veðurþjónustuna, og ég tel, að það sér mikilsverður þáttur í því að forða slysum.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta, en vil aðeins minna á, að það er e. t. v. möguleiki að nota okkar fiskirannsóknarskip um vetrarmánuðina að nokkru leyti til þessarar þjónustu, og það er þó alltaf betra hjá sjálfum sér að taka en sinn bróður að biðja, ef við gætum með okkar eigin skipum innt í framtíðinni af hendi þá þjónustu, sem við nú höfum látið okkur detta í huga að biðja brezka eftirlitsskipið að annast fyrir okkur, að vísu með íslenzkum starfskrafti.