26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í D-deild Alþingistíðinda. (4375)

346. mál, dreifing raforku

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hafði fyrir áramótin borið hér fram fsp. til ríkisstj. um dreifingu raforku. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá var gert á s. l. ári mikið átak í dreifingu raforku um sveitir. Það er a. m. k. óhætt að segja, að mikið var gert miðað við þann framkvæmdahraða, sem orðinn var í dreifingunni síðustu árin þar á undan. Það hafði dregið úr framkvæmdum, og var útlit fyrir, að svo héldist, og þm. ýmsir bundust samtökum um það eða gengu í það að krefja um meira fjármagn til þessara framkvæmda. Við þessu var orðið, þannig að á s. l. ári mun hafa verið unnið að orkudreifingu nokkuð miklu meira en árin á undan. Hins vegar hefur manni skilizt, að á þessu ári sé ekki fyrirhugað að verja eins miklu fé til þessara mála. Það er þó síður en svo, að hér megi draga úr framkvæmdahraða að mínum dómi. Enn þá er eftir lokaátakið, til þess að allir Íslendingar geti orðið raforku aðnjótandi. Fsp. mín er svo hljóðandi:

„1. Hversu mörg sveitabýli eru tengd samveitum á þessu ári? — Þetta ætti nú að vera árið 1970.

2. Hversu mörg býli með allt að 1.5 km meðalfjarlægð á milli býla verða utan samveitu við lok þessa árs, — þ. e. 1970?

3. Hvað er miklu fé varið til dreifingar raforku um sveitir árið 1970?

4. Hvað er fyrirhugað að verja miklu fé til þeirra framkvæmda á næsta ári?“

Ég tel það mjög æskilegt, að þetta verði upplýst svo greinilega sem unnt er á þessum tíma, til þess að hv. alþm. geti alveg vitað, hvernig málin standa, hvað gert var og hvernig horfur eru um framkvæmdir á þessu ári. Þetta brennur mjög heitt á þeim, sem enn eru utan orkuveitusvæða, ýmist með stopult rafmagn frá einkarafstöðvum ellegar alls ekkert rafmagn, og ætti það ekki að þurfa skýringar við fyrir hv. þm. eða hæstv. ríkisstj., hver örlög það eru á þessari öld tækni að vera án rafmagns og þar með allra þeirra tækja, sem nú eru notuð og knúin eru raforku.