26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í D-deild Alþingistíðinda. (4381)

157. mál, gengistöp hjá Fiskveiðasjóði

Fyrirspyrjandi (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja um það, hvað ríkisstj. hygðist fyrir viðvíkjandi gengistöpum hjá Fiskveiðasjóði, sem alls voru ca. 122 millj. kr. Þetta voru þeir aðilar látnir borga, sem tóku lán frá ársbyrjun 1961 og þar til í árslok 1966. En á þessu tímabili hafa erlendar skuldir lækkað um nákvæmlega 17 millj. 399 þús. Nú er sagt í 16. gr. laga um Fiskveiðasjóð, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú tekur sjóðurinn erlent fé að láni og lánar það innanlands, og er þá heimilt að semja svo um við lántakendur, að þeir beri halla eða njóti hagnaðar.“

M. ö. o., Fiskveiðasjóði er ekki heimilt að lána með gengisáhættu nema erlent fé, sem takið er að láni. En á þessu tímabili hefur ekkert erlent fé verið tekið að láni eða a. m. k. eigi sem neinu nemur, því að erlendar skuldir hafa lækkað um 17 millj. kr. En þrátt fyrir það eru þessir aðilar — og handa þeim hefur erlent fé verið tekið að láni — látnir borga í gengistap 122 millj. kr. En hinir, sem hafa fengið erlent fé lánað, eru ekki látnir borga einn einasta eyri, því að samkv. þeirri skýrslu, sem stjórn Fiskveiðasjóðs gaf, þá hefur Fiskveiðasjóður skuldað 105 millj. kr. í árslok 1961. Eitthvað hefur verið greitt af þessari upphæð á tímabilinu, en áreiðanlega ekki öll skuldin. Þetta eru hinir aðilarnir látnir borga. Og frá ársbyrjun 1967 til 29. maí 1968 eru öll lán veitt án gengisáhættu. Samkvæmt þessari skýrslu eru því í árslok 1967 útlán án gengistrygginga 854 millj., en lánað með gengisáhættu 581 millj. Það er töluvert hærri upphæð, sem er lánuð án gengistryggingar, og allar erlendu skuldirnar hafa verið lánaðar þeim aðilum, sem ekki borga neitt gengistap.

Ég sé ekki annað en stjórn Fiskveiðasjóðs hafi brotið þarna lög. Hún hafi lánað fé með gengisáhættu, sem ekki var heimilt að lána með gengisáhættu. Og hún ákvað alveg án tillits til þess, hvort erlent fé var tekið að láni, hve mikill hluti af lánunum var gengistryggður. Ég held, að það hafi verið 3/5, og þegar ég ræddi um þetta við einn af lögfræðingum bankans, hví þetta væri svona hátt, þá svaraði hann með hroka og rembingi, eins og þeir gera alltaf, þessir herrar, sem stjórna þessum bönkum. Það eru margir lögfræðingar þarna.

Fiskveiðasjóður er ríkisstofnun, og ég álít, að ríkisstj. beri siðferðilega ábyrgð á því, að þarna sé að lögum farið. Og vafalaust þarf hún ekki nema hlutast til um, að þetta sé lagað. Ég efast um, að ég hefði sagt nokkuð við því, ef gengistapinu hefði verið deilt jafnt niður á alla aðila og Fiskveiðasjóður hefði sjálfur greitt það, sem þeim bar að greiða, sem höfðu fengið lán án gengistryggingar. Ég hygg, að ég hefði ekki gert neinn hávaða út af því, en þetta gengur of langt. Að láta þá aðila greiða allt tapið, sem ekkert eiga að greiða. En hinir, sem eiga að greiða gengistapið, þeir greiða ekki neitt. Ég hygg, að ríkisstj. líti þannig á, að ríkið eigi þessa lánastofnun, þó að útvegsmenn hafi lagt að miklu leyti fé í hana. Ég reikna með því. Þeir eru húsbændur á heimilinu. Vafalaust þurfa þeir ekki nema hlutast til um, að þetta sé lagað. Og satt að segja er leiðinlegt að þurfa að standa í málaþrasi út af svona löguðu. Það væri miklu æskilegra að jafna þetta. En ég sé enga ástæðu til að þegja yfir þessu. Ég á a. m. k. ekkert það vangert við þessa menn, að ég sjái neina ástæðu til þess, og rétt er rétt. Það er ástæðulaust að láta þá menn, sem ráða yfir lánastofnunum, komast upp með að gera hvaða óhæfuverk sem er.