26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í D-deild Alþingistíðinda. (4388)

157. mál, gengistöp hjá Fiskveiðasjóði

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil nú svara þessari spurningu, sem hér var beint til mín m. a., á þann hátt, að í fyrsta lagi auglýsti fiskveiðasjóðsstjórnin aldrei neitt um þá breytingu, sem hún gerði í sambandi við þessar lánveitingar. Við fréttum hins vegar af því á eftir, að það væru ýmsir farnir að fá lán úr sjóðnum með allt öðrum kjörum en þeir, sem lán tóku áður. Þetta er nú í fyrsta lagi. Í öðru lagi er það svo, að mér kemur ekki til hugar, að það sé hægt að ákveða það að breyta þeim lánskjörum, sem sjóðurinn hefur sett tilteknum aðilum, en ég álít, að gengistapið hefði átt eðli málsins samkv. að jafnast á heildarútlán Fiskveiðasjóðs og Fiskveiðasjóður þá, ef ekki eigandi hans, ríkið, að taka á sig þennan mismun vegna þessarar sérkennilegu framkvæmdar, sem þarna hefur orðið hjá sjóðsstjórninni á lánveitingunum. Mér hefur aldrei komið það til hugar, að hægt væri að breyta lánskjörunum gagnvart þeim, sem hafa hlotið lánin úr Fiskveiðasjóði með þessum hagstæðari kjörum. Þeir halda sig vitanlega við þau og búa að þeim. En það er ekki réttmætt að framkvæma lögin á þann hátt, að þeir, sem búa við gengisákvæði, beri að sínum hluta hærri gengisálög, vegna þess að öll lán Fiskveiðasjóðs eru ekki tekin með í útreikninginn, þegar upphæðinni er deilt út. Þennan mismun, sem þarna kemur fram, væri, eins og ég segi, eðlilegt, að Fiskveiðasjóður tæki á sig sjálfur eða þá eigandi sjóðsins.