26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í D-deild Alþingistíðinda. (4393)

341. mál, endurvarp sjónvarps frá Reykhólum

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Það heyrist stundum fullyrt, að sjónvarpskerfið nái nú um landið allt. En því fer þó fjarri, að landsmenn allir hafi sömu aðstöðu til þess að njóta sjónvarps. Enn liggja heilu byggðarlögin alveg utan kerfisins, og í öðrum eru móttökuskilyrði hvergi nærri viðunandi, vegna þess að endurvarpsstöðvar hafa ekki dugað sem skyldi. Það verður því að lagfæra og efla sjónvarpskerfið til stórra muna, áður en hægt er að segja með sanni, að landsmenn allir eigi þess jafnan kost að njóta sjónvarps.

Þar sem ég þekki bezt til, á Vesturlandi, eru nokkur byggðarlög enn mjög afskipt að því er sjónvarp varðar. Ég hef áður á þessu þingi lýst sjónvarpsskilyrðum á Snæfellsnesinu sunnanverðu, þar sem þau eru algerlega óviðunandi, sérstaklega yzt, í Breiðuvíkinni, og ég vil ítreka það, sem ég sagði þá, að móttökuskilyrðin verða ekki viðunandi þarna, fyrr en reist hefur verið sú endurvarpsstöð, sem sérfræðingar Landssímans munu hafa valið stað í svonefndum Axlarhólum. Og ég vil nota þetta tækifæri til þess að hvetja enn til þess, að þeim framkvæmdum verði hraðað sem mest.

Vestur á Skarðsströnd eru einir 15 bæir, sem enn fara með öllu á mis við sjónvarp. Þeir ná ekki sendingum frá þeirri endurvarpsstöð, sem flytur dagskrá sjónvarpsins inn á heimili Saurbæinga. Þar ber á milli fjöll og ása, og sjóávarp nær ekki til þessara bæja fyrr en reist hefur verið sú endurvarpsstöð, sem fyrirhuguð er á Reykhólum. Þetta er afskekkt sveit, Skarðsströndin, eins og Breiðuvíkin, og þeim mun meiri er þörfin þarna að sjálfsögðu fyrir þann fróðleik ýmiss konar og afþreyingu og andlega hressingu, sem fylgt getur sjónvarpi.

Það er af þessum ástæðum, sem ég hef leyft mér að beina til hæstv. menntmrh. fsp. á þskj. 199, svo hljóðandi:

„Hvenær má búast við, að upp verði komin endurvarpsstöð sjónvarps á Reykhólum?“