26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í D-deild Alþingistíðinda. (4400)

341. mál, endurvarp sjónvarps frá Reykhólum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svar það, sem ég las áðan við fsp. hv. fyrirspyrjanda, var samið af útvarpsstjóra, eins og eðlilegt er, en ég hef síðan komizt að raun um, að það er að því leyti villandi, að fsp. er frá því fyrir nýár, og bið ég hv. fyrirspyrjanda og þm. velvirðingar á því, að orðalag þess misskilst án leiðréttingar, sem ég nú skal gera. Það, sem útvarpsstjóri á við í svari sínu, er það, að framkvæmdaáætlun fyrir næsta framkvæmdatímabil hefur ekki enn verið samin. En bygging stöðvar á Reykhólum er einmitt til athugunar í sambandi við framkvæmdaáætlunina fyrir næsta sumar. Fjárlög hafa þegar verið afgreidd, en voru ekki afgreidd, þegar fsp. var borin fram. Nú hafa þau verið afgreidd, og Ríkisútvarpið veit, hversu mikið framkvæmdafé það hefur til ráðstöfunar á næsta sumri. Samkv. upplýsingum, sem ég fékk í símtali við Ríkisútvarpið, er einmitt þessa daga verið að vinna að framkvæmdaáætluninni fyrir næsta sumar, og þá kemur bygging sjónvarpsstöðvar á Reykhólum til athugunar. Hún er ein af þeim framkvæmdum, sem eru ofarlega á baugi til athugunar. En endanlegar ákvarðanir hafa ekki verið teknar.

Það er ávallt gerð framkvæmdaáætlun fyrir sjónvarpið fyrir eitt ár í senn, og hefur verið þannig, síðan framkvæmdir við sjónvarpið hófust. Að sjálfsögðu er ekki hægt að gera það nema til eins árs, vegna þess að fjárlögin eru aðeins samin til eins árs, og framkvæmdir hljóta að fara eftir fjárhagsáætlun útvarpsins, sem samþ. er á Alþ. sem liður í fjárlögum. En hingað til hafa framkvæmdaáætlanir varðandi dreifingu sjónvarps ávallt staðizt. Það hefur ávallt verið framkvæmt á hverju ári, sem tekið var í framkvæmdaáætlun snemma á árinu eða í upphafi ársins. Innan örstutts tíma mun framkvæmdaáætlun næsta sumars eða ársins 1971 liggja fyrir, og þá mun fást úr því skorið, hvort Reykhólastöðin verður í þeirri áætlun eða ekki, en hún er ofarlega á blaði við áætlanagerðina.