26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í D-deild Alþingistíðinda. (4401)

341. mál, endurvarp sjónvarps frá Reykhólum

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég mátti til með að biðja um orðið aftur til að þakka fyrir þá niðurstöðu, sem komin er í málið núna. Það kemur sem sé í ljós, að bréfið, sem hæstv. ráðh. las áðan, var dagsett fyrir nýár, fyrir jól, og þegar talað er um næsta ár, þá er þar talað um 1971, en ekki 1972, eins og mér skildist, þegar hann las bréfið upp áðan og lét ekki getið dagsetningar.

Hann segir, að endurvarpsstöð á Reykhólum sé í athugun fyrir þetta ár. Þetta er að vísu ekki yfirlýsing um það, að endurvarpsstöð verði reist á Reykhólum á þessu ári, en ég lít svo á, að þetta sé þó fyrirheit um það, að hún verði reist á þessu ári, enda lét ráðh. fylgja þá fullyrðingu, að áætlanir, slíkar sem hér er um að ræða, hefðu alltaf staðizt. Og ég hygg, að það muni gleðja menn þar vestra að vita, að það eru allar líkur á því, að endurvarpsstöð komi á Reykhólum næsta sumar.