26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í D-deild Alþingistíðinda. (4407)

166. mál, hraðbraut í gegnum Kópavog

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. sérstaklega fyrir þau svör, sem hann gaf hér áðan við fsp. mínum, og þó að í þeim fælist ekki neitt endanlegt loforð um, hvernig þessi vandi yrði leystur, þá tel ég þó, að ráðh. hafi gefið svo ótvírætt í skyn, að sá vandi, sem við Kópavogsbúar höfum við að glíma vegna þessarar dýru framkvæmdar, sem er gerð hraðbrautar í gegnum Kópavog, væri ráðamönnum ljós, að við getum vænzt þess, að úrlausn fáist í þessu máli innan ekki allt of langs tíma, og þá úrlausn, sem við getum verið sæmilega ánægðir með. Þá á ég við það, að við getum borið okkur saman við Reykvíkinga í sambandi við þær vegaframkvæmdir, sem ég hef hér vikið að.

En ástæðan til þess, að ég bar þessa fsp. fram, er sú, að í nokkrum Kópavogsblaðanna hefur því verið haldið fram, að Kópavogsbúar yrðu að leggja fram vegna þessara framkvæmda tiltölulega talsvert miklu meira en Reykvíkingar vegna svipaðra framkvæmda, þ. e. gerð vegarins upp Elliðaárbrekkuna. Ef hv. þm. eru hér einhverjir, sem hlustuðu á þátt í sjónvarpinu nú fyrir nokkru um vegamál, þá minnast þeir þess, að þá hélt Kópavogsbúi því fram þar, — hann er raunar bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstfl. í Kópavogi, — að Kópavogsmenn yrðu að borga hlutfallslega miklu meira vegna hraðbrautargerðarinnar í gegnum Kópavoginn heldur en Reykvíkingar vegna vegagerðar upp Elliðaárbrekkuna. Því hefur líka verið haldið fram af mörgum, og skal ég ekki leggja á það neinn endanlegan dóm nú, að með þessari framkvæmd höfum við orðið að taka á okkur mjög verulega verðrýrnun á verðmætasta hluta bæjarlandsins, sem er sjálft miðbæjarsvæðið, en eins og flestir vita, þá er hraðbrautin í gegnum Kópavog fyrst og fremst gerð vegna annarra sveitarfélaga en Kópavogskaupstaðar sjálfs.

Ég hef sem sagt á þessari stundu enga ástæðu til þess að ætla annað en að hæstv. ráðh. sé vinsamlega stemmdur um að finna á þessum vanda lausn, sem við getum sætt okkur við. Eins og hann vék að áðan, þá var gert á árinu 1966 samkomulag á milli fulltrúa Kópavogskaupstaðar og fulltrúa ríkisvaldsins um gerð þessarar hraðbrautar, og var þá reiknað með því, að Kópavogskaupstaður yrði allt til ársins 1970 að leggja sitt þéttbýlisvegafé fram til þessarar framkvæmdar og mikinn hluta þess allt til ársins 1973.

Við íbúar á þessu svæði leggjum ákaflega mikla áherzlu á, að gjáin, eins og hún er núna, þurfi ekki að standa svona miklu lengur. Okkur finnst það brýnt hagsmunamál og raunar sanngirnismál, að hægt sé að koma „gegnumumferðinni“ sem fyrst á í gegnum gjána, enda þótt allar akbrautirnar verði ekki lagðar strax. En vegagerðin kemur til með að verða miklu dýrari en ráð var fyrir gert á árinu 1966. Mér er tjáð, að hún muni kosta allt að 200 millj. kr., en reiknað hafi verið með um 70 millj. kr., þegar samkomulagið var gert 1966. Það er því alveg ljóst, eins og raunar kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að þéttbýlisvegahluti okkar til ársins 1973 og framlag úr 10% sjóðnum, — þó að við fengjum það allt til þessara framkvæmda — dugir ekki til þess að ljúka þessari vegagerð fyrir árið 1973, ekki einu sinni með einni akbraut, og síðar en 1973 má þessari framkvæmd ekki ljúka, þannig að hún geti komið í gagnið, og þyrfti henni að sjálfsögðu helzt að ljúka fyrr. Sé ég enga aðra leið til þess en að fjármagna hana með lánsfé, sem hæstv. ríkisstj. hefði forgöngu um að afla. En sem sagt, það er ljóst, að þörf er á nýju samkomulagi um, hvernig eigi að leysa það verk, sem eftir er að vinna, til þess að brautin verði nothæf. Í trausti þess, að þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan, og þau fyrirheit, svo langt sem þau náðu, rætist á næstunni, þá er ég ánægður með svarið og þakka það.