26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í D-deild Alþingistíðinda. (4414)

343. mál, ferðamálaráð og Ferðaskrifstofa ríkisins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki beint að blanda mér inn í þá fsp., sem hér er til umr., nema þá mjög óbeint, en af því að hér bar á góma till., sem við fluttum, að ég held á þinginu 1967–1968, um ferðamál, þá get ég ekki stillt mig um að segja um það nokkur orð, vegna þess að ég man vel, hvaða undirtektir þessi till. hlaut hjá hæstv. ráðh., sem hér var að svara. Þessi till., sem flutt var af mönnum, sem nú eru í fjórum flokkum, og ég var 1. flm. að, fjallaði um það, að gerð væri áætlun til þriggja ára um ferðamál á Íslandi með því markmiði að tvöfalda tölu ferðamanna á áætlunartímabilinu. Það var bent á ýmsar leiðir til þess. M. a. var mjög vikið að því, bæði í till. sjálfri og eins í málflutningi fyrir henni hjá okkur öllum, að eitt af því, sem kæmi til greina að gera í sambandi við ferðamálin, væri opnun öræfanna fyrir ferðir, meira skipulögð opnun öræfanna fyrir ferðafólk, vegna þess að við álitum, að einmitt í hinni ósnortnu náttúru landsins lægju einna mestir möguleikar okkar. Mér er ekki kunnugt um, að neitt hafi verið aðhafzt í þessu, og ég hygg, að sá framgangsmáti, sem hafður er í þeim efnum, sé bæði hættulegur út frá sjónarmiði ferðamála og náttúruverndar. Þess eru dæmi, að vissir staðir á öræfum landsins séu að verða örtröð fyrir ágang farartækja, sem ein duga til þess að komast inn á öræfin eins og nú er og spilla mjög bæði leiðum og jafnvel vissum fögrum og mikilsverðum stöðum á öræfunum. Ég tel, að það væri einna mikilsverðast í sambandi við okkar ferðamál, að öræfin væru opnuð með þeim hætti, að komið væri á ákveðnum slóðum og síðan væru settar alveg ákveðnar reglur að öðru leyti um umgengni og umferð á öræfunum, því að hún er ekki til fyrirmyndar víða eins og hún er. En hún er þó að sjálfsögðu miklu minni en efni og aðstæður svara til.

En það var annað í sambandi við þessa till. og undirtektir hæstv. ráðh. við henni. Hann sagði: Þetta er allt of lítið, sem hér er verið að fara fram á. Þriggja ára áætlun hefur ekkert að segja, það er langt komið undirbúningi að fimm ára áætlun, ekki bara þriggja, eins og verið er að fara hér fram á í hæversku sinni, heldur fimm ára áætlun. Nú, þegar þessum áætlaða áætlunartíma er að ljúka, þá hefur þessi fimm ára áætlun, sem ráðh. taldi vera rétt ókomna, ekki séð dagsins ljós og málum ekki lengra komið en svo, að í sambandi við áætlanagerðina hafa komið jákvæðar undirtektir frá Sameinuðu þjóðunum um að aðstoða okkur við áætlunargerðina. Ég held, að það sé ekkert óbrúanlegt bil milli þess að gera þriggja ára, fimm eða tíu ára áætlanir, því að alla vega hlýtur þriggja ára áætlun að geta rúmazt hvort sem er innan fimm eða tíu ára áætlunar, og það er ekki nein mótsögn í því. Og ég hygg, að það hafi einmitt verið þessi mjög neikvæða afstaða hæstv. ráðh. til þessarar till., sem olli því, að hún fékk ekki afgreiðslu, enda þótt, að ég held, flestir ferðamálamenn, sem um hana hafa fjallað, hafi verið henni heldur meðmæltir. Þ. á m. held ég, að ferðamálaráð hafi a. m. k. ekki verið henni andvígt eða jafnvel heldur viljað mæla með henni. Ég hygg, að þessi óvilji ráðh. um aðra áætlun en þá, sem kom frá sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna, hafi líka valdið nokkru um, að þessi till., sem flutt var og endurflutt á síðasta þingi, komst ekki einu sinni til nefndar, fékkst aldrei rædd, enda þótt hún væri lögð fram snemma þings. Þetta kalla ég ekki mikinn vilja til þess, að ferðamálin séu tekin til umr. hér á hv. Alþ., og tel þetta ekki sýna mikinn áhuga hæstv. ráðh. fyrir því, því að svo miklu ræður hann áreiðanlega, að ef hann hefði haft áhuga fyrir því, að þessi till. kæmi a. m. k. til umr. á síðasta þingi, þá hefði hann getað fengíð því ráðið.

Ég tel, að það sé allra góðra gjalda vert, að við fáum tækniaðstoð frá Sameinuðu þjóðunum. Sjálfsagt geta þær eitthvað lagt af mörkum, sem við erum ekki menn til að gera í þessu sambandi, en ég held þó, að þungamiðjan í sambandi við ferðamálin sé að verða sú, að við höfum nærri því ótakmarkaða möguleika til þess að fá ferðamenn til landsins. Landið er að verða það vel þekkt, sérkenni þess og annað, sem ferðamenn vilja sækja hingað, veiði, ómenguð náttúra og náttúrufegurð og sitthvað annað, sem dregur kannske æskilegasta hóp ferðamanna hingað til landsins. Það er enginn hörgull á því að fá þessa ferðamenn hingað. Hitt skiptir máli, að hér sé einhver aðstaða til þess að taka á móti ferðamönnum, einkum gistihúsarými, sem er auðvitað mikils virði, og þá ekki bara í Reykjavík, því að ferðamenn koma ekki til landsins til þess að dvelja hér í Reykjavík, nema þá nætursakir eða svo, heldur vilja þeir fara út á landið, og þar þarf líka að vera aðstaða. Þannig er það lítil lausn á okkar ferðamálum, þó að hrúgað sé upp hótelum hér í Reykjavík í algeru skipulagsleysi. Það þarf að koma fleira til og eitthvað að gera víðar en þar.