26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í D-deild Alþingistíðinda. (4419)

175. mál, hagnýting jarðhita

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Á þinginu 1968–1969, fyrri hluta þess þings, var flutt þáttill. um hagnýtingu jarðhita til ræktunar og rannsóknir í þágu garðyrkju. Flm. þessarar till. var Ásgeir Pétursson, og hún var samþ. óbreytt undir þinglok eða nánar tiltekið 17. maí 1969. Ályktun þessi er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hefja skipulegar, fræðilegar rannsóknir á því, hvernig jarðhiti verði bezt hagnýttur til garðyrkju í landinu. Verði í því efni einkum kannað, hvaða efni reynist bezt til flutnings á heitu vatni og til byggingar gróðurhúsa. Þá verði og rannsakað, hvort unnt sé að draga úr byggingarkostnaði gróðurhúsa, t. d. með samræmingu í byggingaraðferðum og stærð gróðurhúsa, smíði einstakra húshluta og tæknibúnaðar þeirra. Beinist rannsóknin einnig að því að auka hagnýta þekkingu á sviði jarðvegsfræði, áburðarþarfar og gróðurvals á sviði gróðurhúsaræktunar og garðyrkju almennt.“

Í grg., sem flm. lét fylgja till., bendir hann á það, að enda þótt fólki, sem hefur framfæri sitt af slíkri garðyrkju, fjölgi stöðugt og flatarmál þess gróðurlendis, sem er undir gleri, vaxi stöðugt og neyzla gróðurhúsaafurða aukist, þá sé það einatt svo, að handahófskennt sé, hvernig gróðurhús eru byggð, enda liggja ekki fyrir upplýsingar um það, hvaða byggingarefni séu haldbezt og ódýrust til þessara nota. Einnig bresti mikið á, að framkvæmdar hafi verið ítarlegar jarðvegs- og áburðarrannsóknir, sem gætu þó orðið undirstaða aukinnar hagkvæmni við rekstur gróðurhúsa og aukið uppskeru í þeim. Hann bendir einnig á það í grg., að miklar framfarir hafi orðið í plastiðnaði og plastið gæti e. t. v. leyst glerið algerlega af hólmi í sambandi við gróðurhús og þar með dregið úr kostnaði við að reisa þau og e. t. v. aukið endingu þeirra. Að lokum segir hann, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt:

„Gert er ráð fyrir því, að starfandi rannsóknastofnanir atvinnuveganna framkvæmi rannsóknir þær, sem fjallað er um í þessari þáltill.

Því miður verður að segja, að garðyrkjubændum virðist, að lítið hafi orðið úr framkvæmd þessarar till. Þeim virðist, að þeir, sem hafa átt að sjá um framkvæmdina, hafi brugðizt því hlutverki sínu. Hins vegar er mér kunnugt, að ýmsir garðyrkjubændur hafa sjálfir gert tilraunir á þessu sviði. Ég minnist í því sambandi sérstaklega eins garðyrkjubóndans í Borgarfirði, á Laufskálum í Stafholtstungum. Aðalsteinn Símonarson hefur reist þar tvö eða jafnvel þrjú mjög myndarleg ný gróðurhús, stór og mikil úr plasti, en þessar tilraunir eða þessa tilraunastarfsemi, sem kalla má, hefur hann orðið sjálfur að kosta og kalla til sérfróða menn. Aftur á móti eins og ég segi, virðist manni, að helzt til lítið beri á framkvæmdum af hálfu hins opinbera, og því hef ég leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 246, svo hljóðandi:

„Hvað líður framkvæmd þál. frá 17. maí 1969 um hagnýtingu jarðhita til ræktunar og rannsókna í þágu garðyrkju?“