26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í D-deild Alþingistíðinda. (4422)

175. mál, hagnýting jarðhita

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ef ég vissi það ekki, að hv. þm. hefur haft það notalegt í dag og sofið vel í nótt, þá hefði ég bara sagt, að hann væri ruglaður. En það getur nú víst ekki verið. Hv. þm. slær út í aðra sálma og hættir að tala um það, sem hér er um að ræða, fer að tala um leirverksmiðju í Dalasýslu o. s. frv., till., sem ekki hafi fundizt, og þess vegna hafi ekki verið hægt að svara í sambandi við hana hér á hv. Alþ. Hann átelur það, að það hafi bara ekkert verið gert í sambandi við þessa till., sem hér um ræðir, núna á annað ár. Hún var samþ. í maí 1969, og það er ekki komið lengra en það að taka inn á fjárlög ríflega upphæð til þess að fullnægja till. á árinu 1971. Jú, hann segir, ég skrifaði það niður orðrétt, „ekkert verið gert, aðeins unnið að undirbúningsstörfum“. En ég vil nú spyrja hv. þm.: Á ekki að byrja á undirbúningsstörfum? Á að byrja á einhverju öðru? Og þurfa ekki undirbúningsstörfin að taka nokkurn tíma, til þess að hægt sé að koma verkunum af og ljúka því, sem á að gera? Þannig er nú þetta allt eitthvað öfugsnúið hjá hv. þm. og eins og hann hafi alls ekki áttað sig á málinu til fulls.

Hann talar um, að ég hafi skrifað Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Það var nú það eðlilega, og ylræktarráðstefnan, sem hér var haldin og áður var um rætt, ræddi einmitt um þessa till., og þar var rætt um það, hvernig bezt væri að framkvæma hana. Sú ráðstefna var haldin á árinu 1970, eftir að búið var að afgreiða fjárlög. Og í samræmi við það, að eðlilegt væri að taka tillit til till., þá er veitt fé á fjárlögum, svo að hægt sé að byrja að framkvæma hana. Svo segir þessi hv. þm., að það sé bara ekkert mark tekið á þál. Ég er alveg sannfærður um, að það eru fleiri þm. en ég, sem finnst þetta bara skrýtið, og mundi ekki mörgum hv. þm. detta í hug: Hvað meinar maðurinn? Hvað er hann að fara? Hvers vegna þakkar hann ekki fyrir það, sem búið er að gera í sambandi við þessar till., frekar en að vera með ónot? Eða þá það, ef hann vill ekki þakka fyrir, sem ég er ekki að biðja um, að láta þá bara vera að segja nokkuð. Ég hefði ekki ætlazt til þakka, en að hann léti það bara vera að segja nokkuð. En það er eitthvað, sem rekur hann af stað. Hann heldur því fram, að það sé kannske eitthvað annað, sem vakir fyrir garðyrkjubændum í Borgarfirði en á Suðurlandi. En ég get bara upplýst það, að ég þekki þó nokkuð marga garðyrkjubændur í Borgarfirði og mér finnst þeir hugsa alveg nákvæmlega jafnheilbrigt eins og garðyrkjumenn á Suðurlandi. Það er enginn vafi á því, að garðyrkjumennirnir vilja aðeins spyrja að því, hvaða árangur fáist af þessari till., sem hér er um að ræða. Fáum við raunhæfar rannsóknir? Fáum við þær niðurstöður, sem við getum byggt á? Ég veit, að þeir telja málinu bezt komið hjá Garðyrkjuskóla ríkisins.

Hv. þm. talaði um, að það væri nú ekki ástæða til þess að vera að spara. Við erum víst nógu ríkir til þess, að við þurfum ekki að vera að spara. En það var nú ekki það, sem fyrir mér vakti endilega, aðeins að spara, þegar ég taldi það heppilegra og praktískara — og hef þar með mér fjölda garðyrkjumanna — að nota Garðyrkjuskóla ríkisins og sérfræðingana, sem þar eru, til þess að hafa þessar rannsóknir með höndum frekar en að fara að ráða sérfræðing eða sérfræðinga í þessari grein við Rannsóknastofnun landbúnaðarins, sem hefur ekki sérfræðinga á þessu sviði. Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur marga sérfræðinga á öðrum sviðum landbúnaðarins, en ekki í garðyrkjunni. En við höfum Garðyrkjuskóla ríkisins, sem er miðstöð garðyrkjunnar, og tilraunastöð við skólann. Og það þykir heppilegra að nýta þá krafta, sem þar eru, en að fara að setja upp nýtt apparat við Rannsóknastofnun landbúnaðarins, sem mundi kosta miklu meira, og óvíst, að skilaði nokkuð betri árangri.