02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í D-deild Alþingistíðinda. (4438)

336. mál, heimavistarkostnaður

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fsp. mín var um það, hver væri heimavistarkostnaður í héraðsskólunum hverjum um sig tvö s.l. skólaár, skólaárið 1968–1969 og skólaárið 1969–1970. Hæstv. menntmrh. lét útbýta skýrslu sem svari við þessari fsp. á síðasta fundi, þegar fsp. var til umr., og er ég mjög ánægður með það að hafa fengið þannig svar við fsp. minni.

Það er mjög ítarleg skýrsla um heimavistarkostnaðinn í öllum héraðsskólunum þessi tvö skólaár, og kemur þar í ljós það, sem var tilefni minnar fsp. Það var þetta, að ég hafði vitneskju um það, að gífurlegur munur væri á heimavistarkostnaðinum í hinum ýmsu héraðsskólum, þannig að heimavistarkostnaðurinn væri 30–40 þús. kr. í sumum þeirra, en 20–30 þús. kr. í öðrum og áberandi hæstur í nokkrum einstökum skólum. Þetta kemur fram í skýrslunni og reynist þannig rétt að vera. Á fyrra skólaárinu, 1968–1969, kemur í ljós, að héraðsskólinn á Núpi er langdýrastur. Þar kostar fyrir pilta 140 kr. á dag og 123 kr. fyrir stúlkur, en hjá allmörgum héraðsskólum er þetta miklu lægra, nálega þriðjungi eða meira en þriðjungi lægra. T. d. er þetta innan við 100 kr. að meðaltali á pilta og stúlkur í Reykjanesskólanum. Að Reykjum í Hrútafirði er dagkostnaðurinn 100 kr. fyrir pilta og 92 kr. fyrir stúlkur og að Laugum 100 kr. fyrir pilta og 88 kr. fyrir stúlkur og að Eiðum 94 kr. fyrir pilta og 89 kr. á dag fyrir stúlkur. 140 kr. sem sé á Núpi, innan við 100 og 100 hjá einum fjórum öðrum skólum. Hins vegar er þetta nokkuð önnur röð síðara skólaárið. Þá er mestur heimavistarkostnaður á dag að Skógum, 150 kr. á dag hjá piltum og 145 hjá stúlkum. Næstdýrast er þá Reykholt, piltarnir 148 kr. á dag og stúlkurnar 138, og Núpur þriðji dýrasti, 136.80 fyrir pilta og 124.60 fyrir stúlkur. Þetta er í raun og veru óskýranlegur mismunur, þegar þetta nemur þriðjungi og jafnvel meira í kostnaði á dag á nemendurna.

Annar kostnaður, eins og þjónustugjöld og heimavistargjöld, eru líka talsvert mismunandi í skólunum, allt frá 500 kr. og upp í 2500, og virðist það þó eftir líkum að dæma, að nokkuð svipað sé þarna verið að greiða fyrir með heimavistargjöldum og öðrum þjónustugjöldum í þessum sambærilegu skólum. Ég vildi, ef unnt væri, að hæstv. ráðh. gæfi skýringar á þessum mikla mun, því að þarna er um allverulegar upphæðir að ræða, sem hafa áhrif á það, að fátæk heimili geti sent sína nemendur í þessa skóla og aftrað því, að þau geti sent þá í þá skóla, sem dýrastir reynast frá ári til árs. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geti gefið skýringar á þessum mismun.