02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í D-deild Alþingistíðinda. (4441)

336. mál, heimavistarkostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil engan veginn draga í efa, að þær upplýsingar, sem hv. þm. greindi frá, að hann hefði frá föður tiltekins nemanda að Núpi, geti verið réttar, en bendi hins vegar á, að engu að síður getur sú tala, sem hér er greint frá í skýrslunni, líka verið rétt miðað við þær forsendur, sem skýrslan er byggð á. Í formála að skýrslunni, sem útbýtt var, segir hér, að dagafjöldi nemenda sé mjög misjafn, en reiknað sé í þessari skýrslu með þeim fjölda, sem mestur geti orðið í viðkomandi skóla. Þannig getur vel verið, að munur sé á þeirri meðaltalstölu, sem hér er greint frá, og þeirri tölu, sem ákveðinn nemandi hafi þurft að greiða. En ég endurtek aðeins, að þetta mál allt saman er í tilefni af þessari skýrslugerð í nánari athugun. Það getur vel verið, að okkur í rn. þyki ástæða til þess að birta hv. þm. síðar með sama hætti og þessa skýrslu niðurstöður athugana á þeim mun, sem hér hefur komið í ljós og er þess eðlis, ég er sammála báðum hv. þm. um það, að hann gefur fullkomið tilefni til nánari athugunar á málinu, en hún mun taka einhvern tíma.