02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í D-deild Alþingistíðinda. (4448)

340. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fyrst ætla ég að stikla á stærstu steinunum í byggingarsögu Kennaraskólans og æfingaskóla hans. Byggingarnefnd tilrauna- og æfingaskóla var skipuð 23. des. 1944. Byggingarnefnd Kennaraskólans var skipuð 20. marz 1951. Menntmrn. féllst á till. meiri hl. byggingarnefndarinnar um, hvaða teikning skyldi valin, 29. maí 1958, en þá fyrst kom ákveðin till. frá meiri hl. byggingarnefndar til úrskurðar rn. Hófust framkvæmdir fljótlega úr því. Var megináherzla lögð á byggingu kennslurýmis, en bygging samkomusalar, bókasafns o. fl. látin mæta afgangi. Var hin nýja bygging Kennaraskólans tekin í notkun haustið 1962 eða fjórum árum eftir að ákvörðunin var tekin um bygginguna. Miðað við aðsókn að skólanum undanfarna áratugi átti sú stærð hússins, sem ákveðin var, að duga um alllangt skeið. Í fjárlögum fyrir árið 1968 var í fyrsta sinn veitt fé til íþróttahúss, en aðeins 1 millj. kr. Á fjárlögum fyrir árið 1970 var síðan haldið áfram fjárveitingum til byggingar kennaraskólahússins og þá veittar 5 millj. til nýrrar álmu við skólahúsið. Gerðar voru á því ári, í fyrra, áætlanir um víðfangsefni, stundafjölda og nemendafjölda í breyttum kennaraskóla svo og húsnæðisþörf slíks breytts kennaraskóla. Hinn 24. nóv. 1970 ákvað menntmrn. að skipa nýja byggingarnefnd og heimilaði undirbúning að teikningum að viðbótarhúsnæði við Kennaraskólann og æfingaskólann. Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár voru síðan veittar 8 millj. kr. til byggingar íþróttahúss.

Hinn 24. des., eða réttum mánuði eftir að ákvörðun var tekin um, að skipa skyldi byggingarnefnd, var byggingarnefndin skipuð, og eiga í henni sæti Broddi Jóhannesson skólastjóri, formaður, Árni G. Stefánsson kennaraskólakennari og Guðmundur Þór Pálsson deildarstjóri byggingardeildar menntmrn. Hinn 27. nóv. 1970 hafði verið rætt við arkitektana Helga og Vilhjálm Hjálmarssyni, og hafa þeir unnið að teikningum síðan. Þó hefur nokkur töf orðið af því, að ráðlegra þótti að endurskoða áætlaða kennaraþörf í landinu, bæði með hliðsjón af breyttum fæðingartölum og væntanlegum breytingum á skólakerfi. Er þeirri áætlun lokið, en forstöðumaður byggingardeildar menntmrn. er að endurskoða kennslustundafjölda og húsnæðisþörf með hliðsjón af hinni nýju áætlun.

Um æfinga- og tilraunaskólann er þetta að segja. Fyrsta áfanga þess skóla verður væntanlega lokið á sumri komanda. Fullbúnar má kalla, að séu 15 kennslustofur af venjulegri stærð, tvær litlar stofur og fimm herbergi fyrir rannsóknir og starfshópa, kennarastofa og skrifstofur, samkomusalur nema nokkuð er ógert í búnaði leiksviðs, anddyri, gangar, hreinlætisklefar og flestar geymslur. Nokkuð vantar enn af innréttingum.

Þá er að víkja að því, sem gerzt hefur í málefnum Kennaraskólans á undanförnum áratug, og þeim áhrifum, sem þær stórkostlegu breytingar hafa haft á áætlanir um áframhaldandi byggingar fyrir Kennaraskólann. Nemendafjöldi Kennaraskóla Íslands var óbreyttur að kalla frá stofnun skólans 1908 til haustsins 1961, en þá tvöfaldaðist nemendafjöldi í 1. bekk skólans miðað við fyrra ár. Með tilkomu hinnar nýju löggjafar um skólann frá árinu 1963 tók þó fyrst steininn úr, eins og eftirfarandi tölur um nemendafjölda skólans á árunum 1960–1969 sýna. Árið 1960 voru nemendur 137, 1961 170, 1962 216, 1963 282, 1964 357, 1965 397, 1966 488, 1967 671, 1968 821 og 1969 954. Nemendafjöldi á yfirstandandi skólaári er 826, en á síðasta hausti tóku gildi ný ákvæði um námstíma svo og voru einkunnamörk gagnfræðinga til inngöngu í skólann hækkuð nokkuð.

Meginskýring hinnar gífurlegu aukningar á aðsókn að Kennaraskólanum er eflaust tvær breytingar, sem gerðar voru á lögum um Kennaraskólann 1963. Annars vegar var þeim, sem stunda nám í Kennaraskólanum, opnuð leið til stúdentsprófs og þar með að háskólanámi. Enn meira máli mun þó hitt skipta, að áður var landspróf eitt inngönguskilyrði í Kennaraskólann.Var þó oft veitt undanþága frá þessu ákvæði til þess að koma nemendafjölda í 1. bekk upp í hæfilega stærð.

Í nýju lögunum frá 1963 var gagnfræðingum með lágmarkseinkunn hins vegar einnig veittur aðgangur að skólanum. Af 709 nemendum, sem nú eru í 1.–4 bekk Kennaraskólans, eru 62% gagnfræðingar, en 38% landsprófsmenn. Aðrir nemendur Kennaraskólans eru í stúdentadeild eða framhaldsdeildum, um 160. Nú væri eðlilegt, að spurt væri, hvers vegna ekki hafi verið ráðizt í viðbótarbyggingar við Kennaraskólann, þegar augljóst var orðið, að hann væri orðinn of lítill. Það á sér skýringu. Á undanförnum árum hefur komið í ljós, að fjöldi nemenda í Kennaraskólanum hefur vaxið meira en þörfin fyrir kennara mun vaxa á næstu árum. Það, sem nauðsynlegt hefur verið að gera, hefur verið að auka og bæta kennaramenntunina og samræma tölu brautskráðra kennara við væntanlega kennaraþörf. Einmitt þetta hefur verið lagt til, að gert verði í hinu nýja frv. um kennaraháskóla, þar sem kennaramenntunin er flutt á háskólastig.

Eins og fram kom, munu þær tvær breytingar, sem ég nefndi, þ. e. annars vegar það, að nám í Kennaraskólanum hefur síðan 1963 getað leitt til framhaldsnáms og háskólanáms, og hins vegar, að rýmkuð voru inngönguskilyrði skólans, þannig að tveir af hverjum þrem nemendum, sem nú eru í skólanum, eru komnir inn í skólann í skjóli þeirra ákvæða, þessar breytingar munu hafa átt meginþáttinn í þeirri stórkostlegu aukningu, sem átt hefur sér stað á nemendafjölda Kennaraskólans á undanförnum árum og hefur valdið því, að nú eru mun fleiri kennaranemar við nám í Kennaraskólanum en vitað er um, að kennarastöður séu til fyrir á næstu árum. Og þess vegna hefur gagnger endurskoðun allra þessara mála verið nauðsynleg, enda verið framkvæmd á undanförnum árum.

Ég var persónulega á sínum tíma mjög hikandi við að fallast á, að samtímis því að Kennaraskólinn væri gerður að stúdentaskóla væru inngönguskilyrði í hann gerð rýmri en í aðra stúdentaskóla, þ. e. menntaskólana. Af hálfu Kennaraskólans var hins vegar lögð á þetta mikil áherzla, ég vil segja megináherzla, og féllst ég að lokum á það, að frv. væri flutt í þeirri mynd, sem það var flutt, þ. e. með hinum rýmkuðu inngönguskilyrðum. Ef þessi ákvörðun, sem Alþ. tók, ágreiningslaust, að því er mig minnir, hefði ekki verið tekin, hefðu að sjálfsögðu ekki skapazt teljandi vandræði í húsnæðismálum Kennaraskólans á undanförnum árum.

Eins og hv. alþm. er nú kunnugt, hefur verið samið og var lagt fram í gær frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands. Verði frv. að lögum, mun verða gerbreyting á skólanum og kennaranámi í landinu. Ekki sízt mun þá skapast algerlega nýtt viðhorf í húsnæðismálum kennaramenntunarinnar. Allar fyrri áætlanir og teikningar þurfa að endurskoðast frá grunni, þar sem nýskipanin hlýtur að hafa í för með sér gagngerar breytingar á nemendafjölda og þá breytingar til lækkunar á nemendafjöldanum, og enn fremur hljóta allt aðrar kröfur að verða gerðar til húsrýmis fyrir háskóla en fyrir almennan sérnámsskóla.

Eins og ljóst má vera af framansögðu, hafa byggingarmál Kennaraskólans verið í deiglunni á undanförnum árum. Hin óvæntu áhrif gildandi löggjafar frá 1963 á aðsókn að skólanum hafa valdið því, að óvissu hefur gætt um framtíðarskipan á málum hans, og hinu, að óráðlegt þótti að ráðast í byggingarframkvæmdir með hliðsjón af bersýnilega óeðlilegu ástandi í skipulagi skólans og stærð. Hefði fé verið ausið blint í byggingarframkvæmdir við skólann, meðan þannig var ástatt, má segja með réttu, að gáleysislega hefði verið farið með fé skattborgaranna og skólanum vafasamur greiði gerður, ef hann að lokinni óhjákvæmilegri nýskipan hefði setið uppi með byggingar, sem í fæstu tilliti hefðu verið sniðnar eftir þörfum hans í hinni breyttu mynd, eftir þörfum hans sem kennaraháskóla.

Nú er unnið að gerð teikninga að viðbótarhúsnæði fyrir Kennaraskólann, og enn fremur er unnið að teikningum að íþróttahúsi fyrir skólann og æfingaskóla hans. Þessi undirbúnings- og teiknivinna er að sjálfsögðu mjög háð því, hvort frv. um Kennaraháskólann verður að lögum nú á þessu þingi, og yfir höfuð að tala, hvort það verður að lögum, sem ég þó vona eindregið, að verði, og það strax á þessu þingi. En mestu máli skiptir, að kennaramenntuninni verði komið í skynsamlegt og varanlegt horf, að hinum innri skilyrðum sé fullnægt, þá fyrst hefur skapazt traustur grundvöllur til þess að sinna hinum ytri skilyrðum húsnæðismálanna af festu og krafti og þeirri forsjálni og framsýni, sem jafnan þarf að vera leiðarljós og kjölfesta, þegar ráðizt er í fjárfrekar byggingar, sem lengi eiga að standa.

Með þessu móti vona ég, að mér hafi tekizt að gera grein fyrir þeim vandamálum, sem við hefur verið að etja í málefnum Kennaraskólans og kennaramenntunarinnar á undanförnum árum, og hver sé stefna ríkisstj. á þessu sviði, en hún er sú að óska eftir því, að frv. það, sem lagt var fram í gær, um Kennaraháskóla, verði að lögum á þessu þingi, og þá mun þegar í stað á næsta sumri verða hafizt handa um þær ráðstafanir í byggingarmálum eða húsnæðismálum skólans, sem sú nýskipan, sem þá ætti að geta komið til framkvæmda næsta haust, gerir nauðsynlegar, eðlilegar og raunar sjálfsagðar.