02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í D-deild Alþingistíðinda. (4452)

340. mál, Kennaraháskóli Íslands

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég fer aðeins fram á að fá að gera aths. við þau ummæli hæstv. ráðh., að það hafi verið eitthvert lauslegt umtal hjá skólastjóra Kennaraskólans að fá að teikna. Ég hef hér í höndum ljósrit af bréfi frá skólastjóra Kennaraskólans, sem hann skrifaði menntmrn. 19. nóv. 1970, og í því segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Enn fremur leyfi ég mér að minna á það, að jafnskjótt og kunnugt varð um fullar líkur á fjárveitingu þessari (þ. e. 5 millj. þær, sem veittar voru á fjárlögum 1970), hóf ég víðræður við rn. um leyfi til þess að láta teikna áfangann. Í framhaldi af þeim umr. skilaði ég grg. minni til byggingardeildar rn. 17. nóv. 1969, átti fundi með forstöðumanni byggingardeildarinnar og skilaði sundurliðaðri áætlun skólans um kennslustundafjölda í einstökum námsgreinum 8. jan. 1970. Forstöðumaður byggingardeildarinnar gerði á þessum forsendum skýrslu um málið og yfirlit um húsnæðisþörfina til ráðuneytisstjóra Birgis Thorlacius, dags. 18. febr. 1970. Ráðuneytisstjórinn fól mér að gera grein fyrir óskum skólans um æskileg og skynsamleg áfangaskil þessara framkvæmda, og gerði ég það í till. minni til fjárlaga fyrir árið 1971. Loks endurtók ég beiðni mína um leyfi til að láta hefja teikningar í bréfinu til rn. 28. okt. s.l. Enn beiðist ég þess, að rn. láti gera eða veiti leyfi til að gerðir verði uppdrættir að víðbótarbyggingu við kennaraskólahúsið við Stakkahlíð og íþróttahúsi fyrir skólana báða, Kennaraskólann og æfingaskólann, og sé þá stuðzt við þá undirbúningsvinnu, sem byggingardeildin hefur þegar látið í té, og till. mínar til rn. um fjárlög fyrir árið 1971.“

Eins og sést af þessu bréfi, hefur skólastjóri skólans farið fram á það í heilt ár við hæstv. ráðh. að fá að ráðast í teikningar að skólanum, en verið bannað það. Honum var ekki leyft að ráðast í teikningar, fyrr en eftir að þetta bréf var skrifað. Ég geri ráð fyrir, að sumir hv. þm. muni eftir því, þegar hæstv. ráðh. skaut því fram úr sæti sínu hér í desembermánuði, að nú hefði leyfið verið veitt.

Skólastjóri Kennaraskólans taldi fært að ráðast í þennan áfanga, enda þótt hann vissi fullvel, hvaða breytingar voru fyrirhugaðar á skólanum. Sé hér um að ræða einhverjar ábyrgðarlausar till., eins og hæstv. ráðh. var að tala um, þá er ásökuninni um ábyrgðarleysi beint gegn skólastjóra Kennaraskólans og þeim mönnum, sem mestan áhuga hafa haft á því, að byggingarmál skólans næðu fram að ganga.