15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (4456)

344. mál, bygging verkamannabústaða

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Á þskj. 213 hef ég borið fram fsp., sem beint er til hæstv. félmrh., um framkvæmd varðandi byggingu verkamannabústaða. Fsp. er í mörgum liðum, sem allir lúta að því að fá upplýsingar um, hvernig hafi tekizt til um framkvæmd á þeim kafla húsnæðismálalöggjafarinnar nýju, sem fjallar um byggingu verkamannabústaða. Og þá er um miklu fleira spurt heldur en það, sem rn. hefur sjálft á sinni framkvæmdakönnu.

„1. Hve margar sveitarstjórnir og hverjar hafa tilkynnt félmrn. um áform sín um byggingu verkamannabústaða á árinu 1971?

2. Í hvaða sveitarfélögum — og hverjum — hefur félmrh. þegar skipað stjórn verkamannabústaða skv. 15. gr. laganna um Húsnæðismálastofnun ríkisins?

3. Frá hvaða sveitarfélögum hefur rn. þegar borizt rökstudd greinargerð um þörf fyrir byggingu verkamannabústaða skv. 16. gr. laganna?

4. Hvaða sveitarstjórnir hafa þegar lokið byggingaáætlun skv. 19. gr.?

5. Hve margar byggingaáætlanir hafa þegar hlotið staðfestingu sveitarstjórna og húsnæðismálastjórnar,en svo er fyrir mælt í lögunum, — svo að byggingarframkvæmdir geti hafizt, sbr. 20. gr.?

6. Hvaða sveitarfélög hafa þegar samþykkt að hefja byggingu verkamannabústaða, og hvaða fjárupphæð hafa þau ákveðið á íbúa, sbr. ákvæði 20. gr. um lágmarks- og hámarksframlög? — Sveitarfélögin eiga val um það að ákveða miðað við íbúa frá 200–400 kr. á ári til þessara framkvæmda. Þarna geta þau ákveðið, hvort þau eru í lágmarki eða hámarki eða þar einhvers staðar á milli, og eru það m. a. forsendur þess, að hægt sé að hefjast handa.

7. Hvaða sveitarfélög hafa þegar greitt framlög sín til Byggingarsjóðs verkamanna árið 1970, og hve mikið fé er það samanlagt? — En mótframlag ríkisins veltur nokkuð á því.

8. Hve margar íbúðir verkamannabústaða verða byggðar á árinu 1971 samkvæmt þeim tilkynningum, sem félmrn. hafa borizt?

9. Hve mörg lán hafa þegar verið veitt skv. ákvæðum 22. greinar laganna um Húsnæðismálastofnun ríkisins?“

Hér er mjög vikið að því, hvaða undirbúning þessi mál verða að fá, til þess að framkvæmdir geti hafizt. Þar veltur mjög á, að sveitarfélögin hafi ekki sofið í málinu. Ég er afskaplega hræddur um, að sú hlið málsins, sem er í höndum sveitarfélaganna, sé allt of stutt á veg komin. En ég bíð nú svars hæstv. ráðh. um það.