02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í D-deild Alþingistíðinda. (4464)

344. mál, bygging verkamannabústaða

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hef nú því miður ekki svör við þessum spurningum, sem ég raunar svaraði þegar í nóv. s. l., og ég ætla, að þær breytingar, sem komið hafa til félmrn., séu ekki miklar á þeim svörum, nema hvað snertir tölu þeirra sveitarfélaga, sem hafa ákveðið að hefja undirbúning undir framkvæmdir. En hv. þm. verður að skilja það, að þessi undirbúningur undir framkvæmdir tekur tíma, það segir bezt saga málanna frá því að félögin, byggingarfélögin, önnuðust þennan undirbúning og framkvæmdir. Eins og ég sagði áðan, þá hófu 11 félög framkvæmdir á árunum 1929–1940 og þó eiginlega ekki öll innan þess tímabils, heldur dróst það lengur, þó að félögin væru stofnuð á þessu tímabili. Og ég skal nefna, hvernig þetta hefur gerzt.

Á Akureyri var stofnað félag 1929. Það hóf framkvæmdir og fékk fyrst lán úr byggingarsjóði árið 1934. Það tók fimm ár að komast í gang. Á Flateyri var félagið stofnað 1940, hóf framkvæmdir 1960. Hafnarfjörður, stofnað félag 1930, byrjaði framkvæmdir 1931–1934. Ísafjörður, stofnað félag 1930, og ætti hv. þm. sjálfsagt að vera kunnugt um það. Það hóf framkvæmdir 1942. Það tók 12 ár hjá þessum hv. þm. að komast í gang. Í Neskaupstað var stofnað félag 1934. Það byrjaði framkvæmdir 1944. Patreksfjörður, félag stofnað 1930, hóf framkvæmdir 1948. Reykjavík, Byggingarfélag verkamanna þar stofnað 1930, hóf byggingar 1939. Seyðisfjörður, félag stofnað 1940, hóf framkvæmdir 1956. Siglufjörður, hann virðist vera fjörugastur í þessu, það félag, sem þar er, stofnað árið 1933 og fyrsta lán og framkvæmdir byrjaðar 1933. Vestmannaeyjar, félag stofnað 1940, fyrsta lán úr byggingarsjóði og framkvæmdir hafnar 1942.

Þetta sýnir betur en nokkuð annað, hversu langan tíma þetta hefur tekið, jafnvel hjá þeim félögum, sem hv. þm. vill nú slást fyrir, að taki við af sveitarfélögunum, jafnvel í því héraði, þar sem hann hefur verið búsettur og starfandi, þegar félagið þar var stofnað. Það virðist hafa tekið 12 ár frá stofnun félagsins, þangað til framkvæmdir hófust.