07.12.1970
Efri deild: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

161. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. hefur gert hér nokkrar aths. Varðandi það, sem hann gat um sérstaklega í sambandi við bráðabirgðaákvæði frv. — þ. e. um heimild til þess þrátt fyrir ákvæði verðstöðvunarlaganna, að breyta megi álagningu á þær vörur, sem lækka hér í tollflokkum eða lækka í verði samkv. því, þannig að áfram megi haga verðlagningu þannig, að það fáist sama krónutala — þá held ég, að það sé réttast, að ég orðlengi ekki mikið um það á þessu stigi málsins, heldur verði það rætt, og sjálfsagt er að gefa á því fullar skýringar í n. eftir því, sem ástæða þykir til, og kemur það þá til umr. við 2. umr. málsins. Þetta er ekki atriði, sem beint snertir tollabreytinguna sem slíka. Það skal fúslega viðurkennt. En það þótti hins vegar rétt, að a. m. k. í vissum tilfellum, án þess að það þurfi að vera almenn regla, væri þessi heimild fyrir hendi, því að samkv. l., eins og þau eru nú, mundi það ekki verða heimilt. Þetta eru auðvitað engin fyrirmæli til verðlagsnefndar um það, nema hún sjái ástæðu til vegna verðbreytinga, að þetta verði gert, og þá ekki sízt kannske vegna þess, eins og hv. þm. vék að, að það gæti verið hagkvæmt engu að síður til þess að stuðla að því, að þessi vöruinnflutningur færðist þá til þeirra landa, þar sem hagstæðari innkaupin eru gerð. En það má endalaust um það ræða, hvort þetta sé rétt og ekki rétt og hvort það eigi að útiloka algerlega þann möguleika, að það megi taka þetta til greina. Og það er ekkert sáluhjálparatriði frá minni hendi, að slík heimild sé veitt, þannig að þyki hv. n. það ekki rétt að veita slíka heimild, sem ég tel þó rétt, að hún skoði rækilega, áður en slíku yrði breytt eða frá því vikið að hafa þetta ákvæði í l., þá að sjálfsögðu er það ekki atriði, sem beinlínis snertir tollskrárbreytinguna sem slíka. Ég hygg þó, að það eigi að vera óhætt að hafa heimild sem þessa og ekki ástæða til þess að halda það, að verðlagsnefndin muni fara að leyfa óeðlilegar breytingar á álagningarprósentu þrátt fyrir það, þó að heimildin sé fyrir hendi. Þetta eitt vil ég segja um þetta á þessu stigi málsins.

Ég vil taka mjög undir það, sem hv. þm. sagði um endurskoðun tollalaganna, að það væri þáttur í heildarendurskoðun tekjuöflunar ríkissjóðs. Það er mjög satt og rétt mál, og einmitt með hliðsjón af því tel ég, að það væri ekki rétt að taka upp þær brtt., sem hann vék hér að og ég man eftir, að fluttar voru af honum og flokksbræðrum hans og kannske einhverjum fleiri hv. þdm. og þm. við tollalagafrv. fyrr á þessu ári um að fella niður tolla af vélum bæði til iðnaðarins og til atvinnuveganna yfirleitt. Þar er um að ræða mjög veigamikla grundvallarbreytingu, og ég er ekki með því að segja, að það væri ekki rétt að stefna að því, að það væri gert. Það er önnur saga. En ég held, að það sé alveg ljóst, að það verður ekki gert nema með því móti að sjá fyrir tekjum með öðrum hætti til handa ríkissjóði eða létta af honum útgjöldum og þess vegna séu slíkar grundvallarbreytingar þáttur í þeirri heildarendurskoðun, sem ég get alveg verið honum sammála um, að æskilegt sé, að fari fram á tekjustofnamálum ríkissjóðs.

Og sú endurskoðun er í rauninni í gangi, vegna þess að í heildarathugun eru bæði skattamál atvinnurekstrarins — það frv., sem var hér lagt fyrir seint á síðasta þingi — og framhaldsathugun þess máls á miklu víðara grundvelli. Að henni hefur einnig verið unnið í sumar og er enn unnið að, þar sem hún tekur einnig til athugunar á því, með hverjum hætti ríki og sveitarfélög eigi í framtíðinni að afla sér tekna. Það er engum efa bundið, að það mál allt þarfnast endurskoðunar, og þó að það, eins og hann réttilega sagði, sé ekki mál til þess að fara út í hér í einstökum atriðum, þá er ég honum nákvæmlega sammála um það, að það er nauðsynlegt að gera víðtæka breytingu á tekjuöflunarmálum bæði ríkis og sveitarfélaga og það hlýtur að koma á dagskrá við þá endurskoðun á skattaálagningu atvinnurekstrarins, sem mun koma til meðferðar á þessu þingi og þar sem jafnframt er gert ráð fyrir, að vikið verði að fleiri þáttum þessa vandamáls, og jafnframt gerð grein fyrir því, hvaða veigamikil atriði þurfi að íhuga í sambandi við þetta grundvallarvandamál allt.

En ég mundi ákveðið vilja fara fram á það — þó að ég að vísu ráði ekki, hvað hv., þm. gera varðandi tillöguflutning — við hv. d., að í sambandi við þetta frv. verði ekki tekið upp jafnveigamikið mál og það, hvort eigi að fella niður alla vélatolla fyrir atvinnuvegina. Þetta frv. gefur ekkert sérstakt tilefni til þess, að það sé gert, heldur hlýtur það að vera þáttur í hugleiðingum um það, að hve miklu leyti tollar eða aðflutningsgjöld eiga að vera þáttur í tekjuöflun ríkissjóðs. Ég er ekki í neinum vafa um það, að almennt séð þarf að ýmsu leyti að breyta þeim, og ég er hv. þm. sammála um, að auðvitað hljóta þessir tollar á hinum ýmsu vörum að vera stighækkandi og mismunandi. Það liggur í augum uppi. En það liggur jafnframt í augum uppi, held ég, að ekki er hægt í jafnríkum mæli og nú hefur verið gert, jafnvel þó að ekki hefði komið til aðild okkar að fríverzlunarbandalaginu, að halda uppi eins háum aðflutningsgjöldum og gilda hér á Íslandi.

Ég tók það fram, að þetta frv. væri leifar af endurskoðun tollskrárbreytingarinnar í sambandi við EFTA-aðild. Hv. þm. vék að því, að það hefði átt að knýja slíkt frv. fram fyrir jól í fyrra, en ríkisstj. hefði verið fæld frá því á síðustu stundu. Ástæðan til þess, að það var gert, og það tel ég rétt, úr því að að þessu er vikið, að rifja upp, var sú, að ætlunin var að fresta þingi til janúarloka, og vegna fyrirhugaðrar aðildar að EFTA, sem átti að taka gildi 1. marz, var engin von til þess, að það væri búið að ljúka meðferð málsins fyrir þann tíma. Hins vegar var sá kostur valinn — og var ríkisstj. á engan hátt þvinguð til þess, heldur var sá kostur valinn, vegna þess að það kom í ljós, að menn töldu sig ekki geta afgreitt þetta mál á svo skömmum tíma — að þing var kallað saman miklu fyrr en ella hefði verið í janúar til þess að gefa nógan tíma til athugunar málsins. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það koma upp margvísleg atriði í sambandi við þetta og eftir atvikum var fallizt á breytingar, þó að það væri nú ekki allt, sem snerti EFTA-aðild, heldur telst til aukinnar hagræðingar fyrir iðnaðinn. En okkur var þá þegar ljóst, að það mundu koma fram ýmis frekari atriði, þar sem hér er um geysilega flókið mál að ræða, sem tollskráin er, og raunverulega hefur komið í ljós, að sumt er hér verndartollar, sem ekki var haldið, að þá væru verndartollar. Það hefur jafnvel komið til ný framleiðsla í landinu, sem leiðir það af sér, að um framleiðsluvörur er að ræða, sem verða þá að hljóta EFTA-aðild, og jafnframt, eins og alltaf verður, eitt og annað, sem reynslan hefur sýnt samræmis vegna, að rétt sé að breyta.

En ég endurtek það og vonast til, að ég geti náð um það samstöðu við þm. almennt, að ekki verði í sambandi við þetta tollalagafrv. hér farið út í neinar veigamiklar breytingar á tollskránni, og vísa enn til þess, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði, að til þess, að svo geti orðið, tel ég, að það þurfi að fara fram miklu víðtækari athugun á öllu tekjustofnamáli ríkissjóðs, áður en ríkissjóður er sviptur nokkrum tekjum að ráði af aðflutningsgjöldum.