02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í D-deild Alþingistíðinda. (4471)

342. mál, endurbætur á flugvöllum

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur veitt í svari við fsp. minni, bæði þær, sem voru beint svar við fsp., svo og aðrar upplýsingar, sem hann góðfúslega veitti, um byggingu flugvalla annars staðar á landinu.

Í sambandi við heildarupplýsingar ráðh. vil ég aðeins láta þá skoðun í ljós, að mér finnst 66.3 millj. ekki vera mikið fé í sambandi við flugvallaframkvæmdir á Íslandi miðað við verðlag, sem er í dag, miðað við, hvað fjárlög eru orðin há, og miðað við getu þjóðarinnar yfirleitt. Ég skal á engan hátt vanmeta upphæðina. Það er sýnilega um að ræða margvíslegar framkvæmdir til aukins öryggis og til að stækka og bæta flugvellina, og þarna er unnið vel. En ég held, að við ættum við næsta tækifæri að íhuga, hvort það á ekki að leggja enn meiri áherzlu og veita enn meira fé til þessara mála en þarna er gert. Þetta er einn af þeim flokkum framkvæmda, þar sem fé er skipt algerlega utan marka Alþ., og kann því vel að vera, að Alþ. hafi ekki fylgzt eins vel með þessu og það gjarnan vildi gera.

Varðandi væntanlegar flugsamgöngur við norðurhluta Vesturlandskjördæmis er það að sjálfsögðu rétt hjá hæstv. ráðh., að í samanburði við fjarlægari staði er nauðsyn ekki jafnknýjandi og t. d. á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Engu að síður tel ég, að þörfin sé orðin allmikil, og vegalengd til aksturs t. d. til Hellissands er ekki miklu styttri en til kaupstaðanna á Norðurlandi, sem hafa reglulegar flugsamgöngur.

Hæstv. ráðh. ræddi aðallega um Vesturland sem eina heild og virtist hugsa málið þannig, að það yrði að tengja saman flugsamgöngur milli Reykjavíkursvæðisins annars vegar og Akraness, Borgarness, Dala og Snæfellsness hins vegar. Eins og fram kom í framsöguræðu minni finnst mér þetta ekki vera raunhæft, og væri frekar athugandi, hvort norðanvert Snæfellsnes gæti ekki að einhverju leyti haft samband við Vestfjarðaflugsamgöngur. Það mætti í sumum ferðunum vestur, sjálfsagt ekki nándar nærri öllum, koma við á einum eða fleirum af þessum flugvöllum, og gæti vel verið, að aukin umferð á þennan hátt gæti orðið til þess að styrkja hvort tveggja, bæði veita nokkrar öruggar eða reglulegar ferðir í viku á þessa þrjá staði og einnig styrkja Vestfjarðaflugið í heild. Ég varpa þessu fram að óathuguðu máli, en tel, að það sé miklu raunhæfara að íhuga stöðu þessara flugvalla í þessu sambandi. Ég tel, að Akranes og Borgarnes séu sérstakt verkefni, sem verði hvað flugsamgöngur snertir að leysa alveg utan við önnur flugsamgönguvandamál í landinu, og e. t. v. verður það ekki leyst fyrr en þyrlustrætisvagnar verða viðráðanleg og fáanleg tæki.

Ég vil vænta þess, að hæstv. ráðh. íhugi þetta mál, láti athuga það frekar. Mér heyrist, að hjá honum sé fullur góðvilji í þess garð, þannig að þess verði ekki mjög langt að bíða, að gerðar verði endurbætur á flugvöllunum. Það er mikið gagn að því að gera þá nokkru lengri en þeir eru í dag, jafnvel þó að ekki takist að hafa þangað reglulegar samgöngur strax, en svo kemur án efa að því að það reynist vera grundvöllur fyrir því að tengja þessa staði við flugsamgöngukerfi landsins.