02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í D-deild Alþingistíðinda. (4482)

345. mál, kal í túnum

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég tek nú hér til máls, vegna þess að á nokkrum hluta þess tímabils, sem kalið fór að gera vart við sig hér, stóð þannig á, að ég var einmitt formaður í stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. En eins og að líkum lætur, komu þessi mál nokkuð til kasta þeirrar stjórnar og þeirrar stofnunar. Ég ætla að leitast við að lengja ekki mál mitt, en ég heyrði það á ræðu hæstv. landbrh., að hv. fyrirspyrjandi mundi hafa deilt nokkuð á þá forustu, er hér hefði verið — eða forustuleysi — um það að reyna að rannsaka kalmálin nægilega vel og leita úrbóta, eftir því sem mögulegt væri. Ég vil aðeins að gefnu þessu tilefni taka fram, að ég held, að það sé algerlega rangt að vera með ásakanir á þá forustu, hvort heldur er í rannsóknarmálunum, hjá Rannsóknastofnuninni eða hjá hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. landbrh., sem við vitum allir, að hefur sýnt þessum málum sérstaklega mikinn áhuga.

Ég hef mikið orðið var við, að það gætti mikillar óþolinmæði hjá a. m. k. æði stórum hópi bænda, strax þegar þessi kalmál fóru að gera vart við sig. Það var eins og ýmsir héldu, að við, þessir, sem vorum í forustunni þá, eða þeir, sem stunduðu rannsóknirnar, mundu geta, ef ekki í dag, þá á morgun a. m. k., gefið svör um það, hvernig þyrfti að haga sér til þess að verða lausir við þessa vá. Þetta er afskaplega mikill misskilningur og það hefur setzt að í mér, að jafnvel hafi verið hér til óþurftar allar þær háværu raddir, sem uppi hafa verið um það, að rannsóknarmennirnir og forustumenn landbúnaðarins þyrftu að koma með ráðin til þess að bæta úr þessum vanda. Ég er nú þeirrar skoðunar, og m. a. vil ég benda á það, að jarðvegur og land er svo margbreytilegt og misjafnt á okkar landi, að það má næstum segja, að það þurfi sérstaka rannsókn fyrir hverja einustu jörð í landinu, ef fást ætti fullnægjandi svar, sem gildir svo, að hver bóndi geti tekið það bókstaflega. Þess vegna hefur alltaf oltið á mestu, að hver einasti bóndi gerði sér grein fyrir því hjá sér, hvernig hann þyrfti að snúast við þessum vanda. Og ég veit, að sem betur fer hafa flestir bændur líka hugsað þannig. En það þarf líka að gá að því þá, að í þessum háværu röddum og kröfum til rannsóknarmanna og til þess opinbera sé ekki þessi tilfinning slævð hjá bændastéttinni.

Ég vil svo bara minna á það, sem oft hefur verið drepið á, að við lifðum sérstakt góðæristímabil allt frá 1920 og fram um 1960, sem öll okkar ræktunarsaga og framfarasaga í raun og veru byggist á, og af þessu tímabili voru dregnar allar þær ályktanir, sem okkar búfræði í raun og veru byggðist á allt fram undir 1960, hún grundvallaðist einmitt á þeim skoðunum og þeim árangri, sem náðist á þessu góðærisskeiði. Við verðum fyrir því að fá miklu kaldara árferði á síðasta áratug, og reynslan sýnir okkur, að þær ályktanir, sem áður voru dregnar, standast ekki.

Það þarf engan að undra, þó að það taki nokkurn tíma að átta sig á því, hvernig bregðast skal við nýjum viðhorfum. Og alveg sérstaklega finnst mér, að það hafi komið í ljós, að á þessu góðærisskeiði var notaður til hins ýtrasta sá gróðurmáttur, sem íslenzka moldin fól í sér, með óhæfilega mikilli notkun tilbúins áburðar, sem kom enn þá verr niður, þegar aftur kólnaði, af því að þá var of langt gengið á þann forða, sem jarðvegurinn þurfti alltaf að skila, til þess að sæmileg uppskera fengist. En hitastigið ræður miklu um það, hversu mikils má krefjast af okkar ágætu gróðurmold.

Ég vil ekki lengja þetta mál, en ég vil aðeins láta það koma hér fram, að ég álít, að það sé mjög rangt að vera með ádeilur hvort heldur er á rannsóknarstofnanirnar og rannsóknarmennina eða ríkisstj. út af því, að hún hafi ekki staðið í stöðu sinni til þess að reyna að bægja þeirri vá frá landbúnaðinum, sem þessi kalmál og grasleysi hafa sannarlega verið.