02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í D-deild Alþingistíðinda. (4485)

345. mál, kal í túnum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er nú ekki tími til í fsp.-tíma að fara ofan í þessi mál, en út af ræðu hæstv. ráðh. verð ég að segja, að ég held, að ýmsum bændum á Norðurlandi og Austurlandi hafi fundizt, að öðruvísi væri tekið á þessum málum eftir að kalið herjaði Suðurland en á meðan það var fyrst og fremst bundið öðrum landshlutum, t. d. fyrir norðan og austan. Og ég veit um það, að margir bændur á Norðurlandi tóku eftir því, að kalnefndin var fyrst skipuð á árinu 1969.

Varðandi það atriði, að rn. hafi farið eftir till. Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins í sambandi við þessi mál, þá vil ég nú draga í efa, að það hafi verið að öllu leyti. Ég man ekki betur en Búnaðarfélagið og Stéttarsambandið hafi skorað á ráðh. og ríkisstj. að styrkja meira grænfóðurræktun og koma upp votheysgeymslum á bændabýlum, einmitt vegna þess að það hefur sýnt sig, að eina leiðin á þessum stöðum, sem kalið hefur herjað, er að breyta til, auka grænfóðurræktunina og nota það hey á túnunum, sem er yfirleitt mjög mikill arfi í, nota það í vothey. Ég hef ekki orðið var við, að ráðh. hafi haft uppi till. hér á þingi um að auka styrk til votheysgeymslna. Ég veit ekki annað en setzt hafi verið á þau frv., sem við höfum komið með í þessu efni, sem er gert einmitt að beiðni þessara félagssamtaka, sem hann segir nú, að hann fari eftir í sínum framkvæmdum.

Í sambandi við forustuna í þessum málum, þá held ég, að eitt það alvarlegasta í þessum málum hjá okkur núna sé þetta kal og hvernig á að bregðast við því. Það verður sjálfsagt ekki fundin lausn á því öðruvísi en reyna að rækta aðrar legundir en við erum með í okkar ræktunarlöndum. Hver er forustan í því? Ég er ekki nógu kunnugur því, en ég hef ekki orðið var við það, að þarna sé nein víðleitni, a. m. k. ekki að ráði. Við heyrum sífellt utan úr hinum stóra heimi um nýja og nýja sigra á þessum svíðum, t. d. harðgerðari tegundir, sem gefa meira uppskerumagn. Ég held, að það þurfi að sinna þessum þætti fyrst og fremst. Það er ekki nóg að gera bráðabirgðaúrlausnir á síðustu stundu, eins og þegar fóðurskorturinn er. Það verður að reyna einhvern veginn að grafast fyrir meinið.

Hæstv. ráðh. sagði í sambandi við bæði heyverkunaraðferð Benedikts frá Hofteigi og annarra, að ekki væri víst, að það væri hin rétta leið. Vantar ekki rannsóknir á þessu sviði? Er það ekki einmitt hins opinbera að reyna að finna hagkvæmustu og beztu aðferðina úr þeim tilraunum, sem hafa verið gerðar? Og er líklegt, að það komi fram hjá einstaklingunum? Verður ekki hið opinbera að ganga þarna á undan, svo það séu kunnáttumenn, sem stjórna þessum rannsóknum? Er nokkurt vit í því, að Pétur og Páll séu að þreifa sig þannig áfram og eyða miklum verðmætum til þessara hluta? Er þá ekki eðlilegra og árangursríkara, að það sé ríkisvaldið? Ég held nefnilega, að forustuna hafi brostið í þessum málum, og ég vil taka undir það, sem hv. 5. þm. Austf. sagði áðan, að það er áreiðanlegt, að það þarf að standa öðruvísi að þessum málum.