23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í D-deild Alþingistíðinda. (4508)

349. mál, setning reglugerðar um skóla skv. 15.gr. laga um fávitastofnanir

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 320 leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til heilbrmrh.:

„Hvað líður setningu reglugerðar fyrir skóla gæzlusystra samkv. 15. gr. laga nr. 53 frá 22. apríl 1967, um fávitastofnanir?“

Til skýringar vil ég leyfa mér að lesa upp 15. gr. þessara laga, sem vitnað var til, nr. 53 frá 1967, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við aðalfávitahæli ríkisins skal reka skóla til að sérmennta fólk til fávitagæzlu. Forstöðumaður er skólastjóri, en undanþeginn skal hann kennsluskyldu. Um stjórn skólans, námstíma, námsefni, prófkröfur og annað, er varðar starfsemi hans, skal ákveðið í reglugerð.“

Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, hefur þessi reglugerð enn ekki verið sett. Hins vegar hef ég ekki getað fengið upplýst, af hverju þessi dráttur stafar á því að setja reglugerðina. Mér þykir þessi dráttur orðinn nokkuð langur og eiginlega bera vitni um einkennilegt tómlæti, og raunar finnst mér þessi dráttur enn þá óskiljanlegri fyrir þá sök, að þessi skóli hafði þegar starfað um nokkurn tíma, áður en lög nr. 53 1967 voru sett, eða að því er mér er tjáð, að einhverju leyti jafnvel allar götur frá 1958. Þess vegna verður því varla borið við, að það sé ekki á reynslu að byggja. Mér er og kunnugt um, að fulltrúar gæzlusystrafélagsins, þeirra, sem hafa lokið námi í þessum skóla, hafa leitað eftir því, að þessi reglugerð væri sett, en án árangurs. Ég efast út af fyrir sig ekki um það, að þessi skóli, sem hér er um að ræða, starfi eftir einhverjum föstum reglum, en það eru ekki reglur, sem settar hafa verið í reglugerð, eins og gert er ráð fyrir í lögunum og beinlínis boðið þar, heldur væntanlega þá reglur, sem settar eru af skólastjóra. En það er auðvitað í alla staði eðlilegt, að reglur um skólann séu settar í reglugerð, þannig að þær séu birtar og liggi ljóst fyrir.

Ekki þarf að fjölyrða um það, að vel verður að vanda til náms þeirra, sem eiga að annast þau málefni, sem hér er um að ræða. Þetta eru viðkvæm mál, og þeir, sem umönnunar eiga að njóta, geta ekki kvartað. Ég er ekki sérstaklega kunnugur þessum málum, en við mig hafa talað fulltrúar úr félagsskap gæzlusystra. Þar gætir óánægju yfir því, að þessi reglugerð skuli ekki hafa verið sett. Það gefur og auga leið, að fyrir nemendur og þá, sem hyggja á nám í þessum skóla, er bagalegt, að þessi reglugerð skuli enn ekki hafa verið sett. Ég hef leyft mér að bera fram þessa fsp. til hæstv. ráðh. til þess að fá skýringu á því, af hverju þessi dráttur stafar, og jafnframt til þess að vekja athygli á þessu máli.