15.12.1970
Efri deild: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

161. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til laga um breytingu á tollskrá er enn til meðferðar hjá þessari hv. þd. Að þessu sinni eru breytingarnar tiltölulega óverulegar og bornar fram af hæstv. fjmrh. á þskj. 205, mest til leiðréttingar.

Fjhn. hefur haft þetta frv. til yfirvegunar og skilar sameiginlegu áliti á þskj. 254, en leggur jafnframt fram brtt. á þskj. 255 og 261. Það mun óvanalegt, að sameiginlegt nál. sé gefið út um tollskrárbreytingar. Ég vil því þakka fjárhagsnefndarmönnum fyrir, hversu mikla sanngirni þeir hafa sýnt við meðferð málsins í n. Síðast þegar tollskráin var til meðferðar, þá voru, eins og ég sagði, verulegar breytingar gerðar aðallega vegna inngöngu okkar í EFTA. Var ætlunin, að tollabreytingarnar næmu þá 545 millj. kr. til lækkunar. Hér er hins vegar um meiri leiðréttingar að ræða til samræmis og vegna ákveðinna óska, sem fram hafa komið við tollskrárnefnd, og eins vegna óska frá einstaklingum og félagssamtökum, sem fram hafa komið við meðferð málsins í fjhn. Hæstv. fjmrh. skýrði við 1. umr. málsins hinar ýmsu breytingar, sem framkoma á þskj. 205. Fjhn. fékk einnig á sinn fund ráðuneytisstjórann Jón Sigurðsson og Björn Hermannsson fulltrúa til að útskýra frekar ýmis atriði. Í grg. prentaðri með frv. er upplýst, að tollabreytingarnar, sem þar eru ákveðnar, valdi tekjutapi fyrir ríkissjóð, er nemur 26 millj. kr. miðað við innflutning ársins 1969. Brtt. fjhn. er hins vegar áætlað, að kosti um 11 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð miðað við 1969. Eru þá ekki metin til fjár heimildarákvæðin við 50. gr. N. hefur sérstaklega haft í huga með sínum aðgerðum að íþyngja ekki íslenzkum iðnaði með breytingum sínum — lækka ekki tolla hjá ýmsum greinum iðnaðar eða fullunnar iðnaðarvörur, nema samtímis komi heimildarákvæði til að endurgreiða efnistollinn í viðkomandi framleiðslu. Þetta á einnig við, þar sem óskir iðnaðarins hafa ekki gengið í sömu átt, eins og oft vill verða. Heimildarákvæði til niðurfellingar tolli á efnisvörum og svokölluðum „komponentum“ hefur einnig verið sett inn, þar sem erfiðleikar hafa verið á því að fá að skipta tollaflokkum, sem gefa ríkissjóði verulegar tekjur. Ég skal nú fara fljótt yfir þær breytingar, sem n. leggur til, að gerðar verði.

28.04, þ. e. vatnsefni og eðalgös: Þar er aðallega um að ræða argongas, sem notað er til suðu í járniðnaði og ekki framleitt hér á landi. Þetta er lítið atriði.

38.19, þ. e. mulinn steinn. Þetta er nýtt efni, sem notað er til vegamerkinga og er fært niður til samræmis við svipaða flokka úr öðru efni.

39.01, þ. e. blöð, þynnur og plötur úr plasti, sem er meira en 0,4 mm að þykkt. Er þetta einnig vegna iðnaðarins — plastiðnaðarins. Áður höfðu þynnri plötur verið færðar niður. Og sama gildir um 39.02, en það er úr einhverri annarri blöndu.

40.07, þ. e. þræðir og snúrur úr toggúmmíi. Þetta er teygja til sokkaframleiðslu.

40.08, þ. e. þéttilistar, og er þetta gert til samræmingar við aðra lista fyrir glugga, sem notaðir eru við glerísetningu.

42.03, þ. e. rafsuðuhanzkar og hlífðarsvuntur, sem ekki er framleitt hér á landi að marki og er með óeðlilega háum tolli.

Sama er að segja um 65.06, þ. e. hlífðarhjálma, en Öryggiseftirlit ríkisins hefur nú krafizt þess við margs konar vinnu, að slíkir hjálmar væru notaðir, og farið er að setja slíkt í samninga við stéttarfélögin.

Í 68. flokki eru tveir liðir. Það eru aðallega slípisteinar og eru notaðir í rafmagnsverkfæri, sem á er 7% tollur síðan síðast í janúarmánuði, þegar tollskránni var breytt, en þessi tæki í þessi verkfæri voru þá ekki færð til samræmis.

70.14, þ. e. lampar og lampaskermar. Í tollskrárbreytingunni eru þessir lampar og lampaskermar færðir til EFTA-meðferðar — með 65% tolli frá EFTA-löndum, en þessi flokkur, sem er plastflokkur, hafði ekki verið tekinn með, eins og margir liðir um þau efni, sem notuð eru til lampagerðar.

73.27 02, þ. e. girðingarnet, og það er samkv. beiðni Skógræktar ríkisins, sem það er flutt úr 20% í 10% toll. Gaddavír er með 15% tolli og þykir ekki mjög skemmtileg vörn. Þetta ætti að verða til þess, að gaddavírinn félli meira niður og það yrði meira notað af vírneti, sem yrði þá með lægri tolli.

73.40 30, þ. e. grófunnið járn. Hér er aðallega um að ræða textabreytingu, en textinn, eins og hann var, hefur valdið nokkrum misskilningi hjá tollskoðunarmönnum.

74.03, þ. e. suðuvír úr kopar. Allur annar vír er með 7% tolli. Þessi koparvír mun hafa gleymzt, síðast þegar tollinum var breytt.

74.05, þ. e. samkv. ósk framleiðanda. Þetta er efni til að smíða sjálfvirka hluti, og þetta er lítið atriði. Næstu þrír liðir úr 82. flokki eru handverkfæri.

Þessir þrír liðir voru líka skildir eftir í fyrri endurskoðun, en alveg nauðsynlegt er að breyta þessu, og er þetta að sjálfsögðu kærkomin jólagjöf frá Alþ. til iðnaðarmanna.

84:11, þ. e. þjöppur. Í tollskránni var því síðast breytt í þjöppur fyrir frystikerfi og þær færðar niður í 7%. Nú eru mjög ákveðnar beiðnir sérstaklega frá iðnrekendum um að lækka toll á öðrum þjöppum, sérstaklega minni loftþjöppum, sem sjálfstýritæki eða loftþrýstitæki, og þá hefur n. miðað hér við minnstu afköst allt að 2 m3 á mínútu. Það er mál, sem er notað fyrir slíkar loftþjöppur.

84.13 0l, þ. e. brennarar fyrir fljótandi eldsneyti. Hér er flokknum skipt og brennarar til iðnaðarnota, þ. e. olíubrennarar, teknir hér út úr 25% tollinum og settir í sérstakan flokk — í 7% toll. Þá er miðað við, að þessir brennarar séu fyrir þunga olíu og ekki til almennrar húsahitunar.

84.62, þ. e. kúlu- og keflaleg, einnig með áföstum festingum eða leguhúsum, sem áður var í 25% tolli, en þetta er flutt inn ýmist samsett eða ósamsett, og það veldur misskilningi, að það sé í tveimur tollflokkum.

85. 17, þ. e. brunavarnarkerfi og þjófavarnarkerfi og hlutir til þeirra tækja. Við eigum víst Íslendingar heimsmet í brunum, og n. þótti það við eiga að örva fremur en letja menn til að setja brunakerfi í a. m. k. verksmiðjubyggingar sínar, eftir því sem hægt væri.

Svo kemur hér 90.01. Þetta eru gleraugnagler án umgerða. Það hefur n. fært úr 50% niður í 20%. Þetta atriði kostar ríkissjóð hins vegar 600–700 þús. kr. Hér er ekki um að ræða sjálfa umgerðina, heldur aðeins glerin.

Næsti tollflokkur undir lið 90.04 eru hins vegar hlífðar- og öryggisgleraugu, sem notuð eru við iðnað að kröfu Öryggiseftirlits ríkisins.

Þá kemur að stilli- og rannsóknartækjum, sem tekin eru út úr flokkunum og flokkunum skipt. Hér ætti ekki að vera verulegur tekjumissir fyrir ríkissjóð, þar sem tekin eru út aðeins brýnustu rannsóknartæki. Þetta var á dagskrá síðast líka, þegar tollskránni var breytt, en þótti þá ekki fært að gera þessar breytingar. Hins vegar hefur n. reynt að skilja hér frá þau nauðsynlegustu rannsóknartæki, sem hún taldi nauðsynlegt að breyta tolli á.

Svo kemur hér kafli 92.12. Mjög ákveðnar óskir voru um að lækka tolla af öllum grammófónplötum. Síðast voru plötur með námsefni færðar niður í núll í tolli, og þá var líka lækkaður tollur á plötum með íslenzku efni niður í 30% og erlendu efni niður í 75%. N. gerir það að till. sinni, að nú séu innlendu plöturnar enn færðar niður í 20% toll, en tollur á grammófónplötum með erlendum texta látinn standa óbreyttur.

Þá koma hér heimildarákvæði, 2. gr., 4. liður, 50. tölul. Með frv. hæstv. fjmrh. eru eldavélar settar með EFTA-toll 65% í stað 90%. Þetta mun vera samkv. ábendingum, sem hafa komið frá öðrum EFTA-löndum og því ekki hægt að standa á móti því. Þá er hér sett inn í frv. að endurgreiða tolla af slíkum eldavélum, þannig að tollar af efni séu hvergi hærri af slíkri framleiðslu en 25%, en n. hefur talið, að það væri nauðsynlegt að færa þetta niður í 15%.

Ákvæði til bráðabirgða í frv. leggur n. til, að sé látið falla niður. Þetta er hreint verðlagsmál, en ekki tollamál, og á því heima annars staðar.

Við 50. lið 2. gr. leggur n. til að bætt verði heimild til hæstv. fjmrh. til að endurgreiða toll af rakavarnarefni og þéttilími til framleiðslu á tvöföldu gleri. Þannig er, að við framleiðslu á tvöföldu gleri eru notuð mismunandi efni og sumir framleiðendur nota önnur efni en aðrir fannst of veigamikið að taka allan flokkinn, enda hliðstæð efni framleidd hérlendis, og kom n. sér saman um það að hafa þarna heimildarákvæði fyrir fjmrh.

Við 2. gr. 50. lið hefur n. einnig boðið fram brtt. vegna kröfu um hreinlæti í fiskiðnaði og sé fjmrh. samkv. henni heimilt að endurgreiða toll af gólf- og veggflögum. Þetta mál kom til fjh. frá frystihúsunum, en kröfur um aukið hreinlæti á Ameríkumarkaði hafa stórfelldan kostnað í för með sér fyrir frystihúsin. Núverandi tollur af slíkum flísum er 35%, og er ekki lögð fram till. um að breyta þeim tolli, enda er þessi vara mikið notuð til húsbygginga. Hins vegar er ákvæði í þessum lið um það, að fjmrh. verði heimilt eftir ákveðnum reglum að endurgreiða toll í þessu skyni, meðan þessi mikla skipulagsbreyting fer fram hjá frystihúsunum.

Við 50. lið 2. gr. er einnig sérstaklega bætt heimild til endurgreiðslu á tolli af sjálfvirkum stilli- og stýribúnaði fyrir skip og vélar. Hér er um mál að ræða, sem mikil áherzla hefur verið lögð á af hálfu Félags ísl. iðnrekenda að vísu ekki í þessu formi, heldur hafa þeir farið fram á lækkun margra tollflokka, sem slíkar vörur heyra undir. N. fannst, að endurgreiðsluformið yrði til mikilla bóta, þar til heildarendurskoðun tollskrár fer fram enda er hér ekki lengur um meiri háttar fjárhagsatriði að ræða.

Á þskj. 261 leggur n. fram fimm brtt. við tollskrárfrv. Er hér eingöngu um að ræða svokallaðan hótelborðbúnað og áhöld til hótelrekstrar, enda séu þessar vörur sérstaklega og greinilega merktar. Þessar breytingar eru gerðar skv. mjög ákveðnum óskum frá Félagi veitingahúsaeigenda, enda má segja, að þegar Íslendingar sækjast eftir auknum erlendum ferðamannastraumi til landsins, þá verði löggjafinn einnig að sýna í verki, að veitingastarfsemin sé einhvers metin.

Ég vænti þess, að hæstv. þd. hafi nú fengið nokkra innsýn í þær breytingar, sem hér liggja fyrir og fjhn. mælir samhljóða með.