23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í D-deild Alþingistíðinda. (4514)

351. mál, raforkumál

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Eins og mönnum er kunnugt, er nú mjög mjótt á mununum, að vatnsaflsstöðvar Landsvirkjunar geti fullnægt eftirspurn örugglega. Ástæðan er sú, að Búrfellsvirkjun er ekki nema hálfgerð. Það er aðeins búið að koma upp helmingnum af vélakosti hennar, og auk þess er vatnið í Þjórsá stundum ekki nægilegt til þess, að þessar vélar geti starfað með fullum afköstum, auk þess sem stundum bætast við sérstök vandræði vegna ísmyndunar eða ísa, sem loka að nokkru leyti inntaksmannvirkjum, eða nota verður mikið vatn til þess að fleyta ísnum fram hjá. Jafnhliða þessu hefur álbræðslan í Straumsvík verið stækkuð örar en upphaflega var áformað, og því hefur orkuþörfin þar orðið meiri. Af þessu hefur það leitt, að margsinnis hefur orðið að nota varastöðvar, gasaflsstöðina í Straumsvík og gufuaflsstöðina við Elliðaár, og framleiða þarf raforku með innfluttu eldsneyti, en það er að sjálfsögðu mjög kostnaðarsamt. Auk þessa hefur orðið að grípa til þess nokkrum sinnum að skammta raforku til Áburðarverksmiðjunnar, og hefur það dregið allverulega úr afköstum hennar, og er það í sjálfu sér ærið íhugunarefni, að þannig skuli vera haldið á málum, að það skuli geta komið til, að skammta verði raforku til íslenzkrar verksmiðju, sem er eign ríkisins, til þess að geta fullnægt samningum, sem gerðir hafa verið hér við erlenda aðila. Ég tel, að þetta mál sé þannig vaxið, að eðlilegt sé, að hæstv. ríkisstj. gef í Alþ. skýrslu um það, og því hef ég leyft mér að bera hér fram fsp. á þskj. 320, þar sem spurzt er fyrir um aðalþætti þessa máls:

1. Hver er hámarksorkuþörf á orkuveitusvæði Landsvirkjunar og hver er örugg orkuframleiðsla frá vatnsaflsstöðvum hennar?

2. Hversu mikil orka hefur verið framleidd í gasaflsstöðinni í Straumsvík og gufuaflsstöðinni við Elliðaár að undanförnu og hversu mikill er kostnaðurinn af þeirri raforkuframleiðslu?

3. Hversu mikil brögð hafa verið að skömmtun á raforku til Áburðarverksmiðjunnar og hver aukakostnaður hefur hlotizt að þeirri skömmtun fyrir verksmiðjuna?