23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í D-deild Alþingistíðinda. (4515)

351. mál, raforkumál

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Iðnrn. hafa borizt eftirfarandi svör við þeirri fsp., sem nú var gerð grein fyrir af hv. 6. þm. Reykv.:

1. Hver er hámarksorkuþörf á orkusvæði Landsvirkjunar, og hver er örugg orkuframleiðsla frá vatnsaflsstöðvum hennar? Því er svarað á eftirfarandi hátt: Mesta aflþörf er nú 195 mw. og orkuþörfin 1340 millj. kwst. á ári. Afkastageta vatnsaflsstöðvanna er nú 210 mw. og 1400 millj. kwst. á ári. Í haust mun ný 40 mw. vél í Búrfellsstöð ásamt miðlun úr Þórisvatni taka til starfa, og næsta vetur bætast svo aðrar tvær 40 mw. vélar við.

2. Hversu mikil orka hefur verið framleidd í gasaflsstöðinni í Straumsvík og gufuaflsstöðinni við Elliðaár að undanförnu og hversu mikill er kostnaðurinn af þeirri orkuframleiðslu? Þessu er svarað á eftirfarandi hátt: Á árunum 1966–1969 var orkuframleiðslan með olíu að meðaltali 8.5 millj. kwst. á ári, en 3.9 millj. kwst. á árinu 1970, þar af 2.1 millj. kwst. vegna staurabrots í Búrfellslínu og 0.9 millj. kwst. vegna prófana. Miðað við núverandi olíuverð er olíukostnaðurinn vegna þessarar framleiðslu á árinu 1970 5.9 millj. króna.

3. Hversu mikil brögð hafa verið að skömmtun á raforku til Áburðarverksmiðjunnar og hver aukakostnaður hefur hlotizt af þeirri skömmtun fyrir verksmiðjuna? Því er svarað á eftirfarandi hátt: Á árunum 1966–1969 nam skömmtunin á raforku til Áburðarverksmiðjunnar að meðaltali 54 millj. kwst. á ári, en tæpum 3 millj. kwst. á árinu 1970. Ef Áburðarverksmiðjan flytur inn ammoníak til þess að mæta sömu skömmtunum og á árinu 1970, þá er aukakostnaður hennar af því 750 þús. kr.