23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í D-deild Alþingistíðinda. (4516)

351. mál, raforkumál

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin. En ég vænti þess að fá þessi svör frá honum skriflega einnig, því að það er erfitt að átta sig á þeim tölum svona af því að heyra þær. Hins vegar er ég ekki alveg viss um, að það sé hægt að kalla framleiðslugetu þá, sem nefnd var, örugga orkuframleiðslu. Það hefur komið í ljós, að svo er ekki. Hún hefur farið niður fyrir það nokkrum sinnum vegna ísamyndana við Búrfell. Hins vegar eru horfur á, að úr þessu rætist aftur í haust.

Hæstv. ráðh. gat þess, að kostnaður á síðasta ári vegna reksturs á varastöðvunum hefði verið 5.9 millj. kr. Þar er að sjálfsögðu einvörðungu um að ræða kostnað vegna þess sérstaka samnings, sem hefur verið gerður við álbræðsluna í Straumsvík, því að við verðum örugglega að tryggja henni tiltekið raforkumagn. Og sama er að segja um skömmtunina á raforku til Áburðarverksmiðjunnar. Kostnaður vegna hennar er að sögn hæstv. ráðh. á síðasta ári 750 þús. kr., þ. e. aukinn tilkostnaður verksmiðjunnar, vegna þess að hún hefur ekki fengið næga raforku. Þetta eru staðreyndir, sem ágætt er, að hv. alþm. glöggvi sig á, vegna þess að þær bæta við enn einum þætti í það dæmi, hversu hagkvæmur raforkusamningur sá er, sem gerður var við álbræðsluna í Straumsvík.

Eins og fram kom á s. l. ári, þá eru viðskiptin ákaflega mikil tapviðskipti fyrir okkur fyrstu árin. Í ár t. d. er kostnaður á raforkuframleiðslu Landsvirkjunar 41.3 aurar á kwst., og álbræðslan greiðir aðeins 22 aura. Víð töpum á þessu ári í þessum viðskiptum 139 millj. kr. Á síðasta ári var tap okkar á þessum viðskiptum 155 millj. kr. Þetta tap fer svo minnkandi, en engu að síður verða þarna tapviðskipti fyrstu fimm árin. Og við þetta bætist svo það óhagræði, sem okkar eigin fyrirtæki verða fyrir, eins og Áburðarverksmiðjan, og sá aukakostnaður, sem er vissulega verulegur, sem hlýzt af því að framleiða raforku með dýrum varastöðvum. En sem sagt, það er prýðilegt að fá þessar staðreyndir staðfestar af hæstv. ráðherra.