15.12.1970
Efri deild: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

161. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. fjhn. fyrir það, hve rösklega hún hefur unnið að þessu máli. Þegar ég lagði það hér fram, þorði ég ekki að ætlast til þess af hv. n., að hún afgreiddi það svo skjótlega, að það gæti orðið að l. fyrir áramót, en hins vegar er það að vísu mjög mikilvægt, að svo geti orðið, og því gleðilegra er það, að hv. n. hefur haft frumkvæði um það að taka málið til svo skjótrar meðferðar, sem raun ber vitni um.

Hv. n. flytur hér vissulega allmargar brtt. að tölunni til, og má segja, að eins og hv. form. n. og frsm. gat um kosta þær náttúrlega eitthvað, en ég tel þó, að í þetta hafi eftir atvikum verið farið með fullri hófsemd og það sé einstakt, eins og hv. frsm. sagði, að ná samkomulagi um tollskrárbreytingar, vegna þess að þær eru auðvitað þess eðlis, að það eru alltaf líkur til þess, að það séu margar óskir, sem hv. þm. hafi fram að færa, og ég tel ástæðu til þess að taka undir þakkir hans til hv. n. og allra flokka hér í hv. þd. fyrir það að hafa tekið höndum saman um að afgreiða málið með þessum hætti. Þessar brtt. hafa verið gerðar í samráði við rn. í öllum meginefnum, enda kemur það í ljós, að sumar þeirra snerta einmitt EFTA-breytingar, þannig að það var nauðsynlegt að gera þær. Og það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að meginhluti till. að öðru leyti er í samræmi við þær breytingar, sem gerðar voru á tollskránni snemma á þessu ári, þ. e. að létta undir með iðnaðinum, og er í fullu samræmi við tollalagabreytingar, sem þá voru gerðar. Ég vil því þakka þá hófsemd, sem í þessari meðferð n. felst, og jafnframt taka undir það, að mér finnst það eðlilegt og sanngjarnt, þó að það hafi ekki verið gert í upphaflegu frv. rn., sem eingöngu var miðað við nauðsynlegar breytingar vegna EFTA-aðildar, að létta hér undir með gistihúsarekstrinum, því að það má vissulega segja, að þar sé orðið um nokkurs konar útflutningsgrein að ræða í okkar þjóðlífi í vaxandi mæli, sem skilar okkur dýrmætum gjaldeyri, og því er rétt og eðlilegt að ganga til móts við gistihúsin með þessum hætti, úr því að hv. n. hefur fallizt á að gera það með þeim hætti, sem hún leggur til, því að ella hefði það að sjálfsögðu valdið allt of miklum tekjumissi fyrir ríkissjóð.

Ég vil til viðbótar geta þess, sem ég raunar gat um í upphafi eða við framsögu í sambandi við fsp., sem kom fram við 1. umr. málsins, að 3. gr. frv. er í rauninni ekki tollskrármál, heldur verðlagsmál, og ég get fullkomlega fallizt á þá skoðun hv. n., að sú gr. falli niður og hún eigi ekki heima í þessu frv. Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja um þetta frekar, en endurtek aðeins þakkir mínar til hv. n. fyrir það, hve vel og skynsamlega hún hefur unnið að afgreiðslu þessa máls.