23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í D-deild Alþingistíðinda. (4529)

204. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég verð að játa það, að ég hef nú ekki svo sterkt minni, að ég muni nú án þess að gá að því betur, hvernig ég hafi greitt atkv. í einstökum þingmálum fyrir 8–9 árum, það var hvorki í gær eða fyrradag þetta, sem þm. var að tala um. Fyrir 8–9 árum, segir hann, flutti hann þessa merku till., og hann kom henni fram, því ber nú að fagna, þrátt fyrir mína andstöðu, segir hann.

Ég tel nú það vera aðalatriðið, hvað er satt og hæft í hinu, sem hann bar mig fyrir áðan, að hæstv. félmrh. hefði svarað því til, að ástæðan til þess, að hann hefði ekki getað framkvæmt till., hafi verið andspyrna mín við málið. Þetta heggur nærri mér, og þetta vil ég fá að vita. Hvaða ákvæði eru það í till., sem heimila mér eða Alþýðusambandi Íslands að eiga þátt í framkvæmd tillögunnar? Ef búið er að samþykkja þál. á Alþ. um að koma á samstarfsnefndum í ríkisfyrirtækjum, er það þá ekki mál ríkisstj. og ríkisfyrirtækja og stjórnenda hvers fyrirtækis hverju sinni? Á Alþýðusambandið eitthvað að ráða úrslitum um framkvæmdina? Hvernig hef ég háð þetta átta ára stríð á móti þessari samþykktu till. og komið í veg fyrir framkvæmd hennar? Það er það, sem ég vil fá að vita. Er það eitthvað dularfullt? Hvernig hef ég borið ríkisstj. ofurliði í þessu máli? Nei, hv. 7. þm. Reykv., þú ert alveg villur vegar, þegar þú tekur það gilt, sem ráðh. segir, að ég hafi staðið í vegi fyrir framkvæmd þessa máls. Skjót þú geiri þínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er, til hæstv. ríkisstj.