02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í D-deild Alþingistíðinda. (4536)

352. mál, eftirlit með skipum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Sem svar við þessari fsp. er rétt að vitna í það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að samkv. 44. gr. laganna skipar samgrh. fimm menn í nefnd til rannsóknar sjóslysa til sex ára í senn. Fjórir nm. eru tilnefndir. Þeir, sem tilnefna fulltrúa í nefndina, eru Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna, Sjómannasamband Íslands og Slysavarnafélag Íslands. Ráðh. skipar formann nefndarinnar án tilnefningar. Með bréfi dags. 9. okt. f. á. óskaði rn. tilnefningar þessara aðila á manni í nefndina. Tilnefningar þriggja aðila bárust frá 23. okt. til 12. nóv., en tilnefning Sjómannasambands Íslands barst fyrst 4. febr. s. l. Eftir að tilnefningarnar höfðu borizt, var ekkert til fyrirstöðu að skipa nefndina, og var það gert mánudaginn 8. f. m. Nefndin er þannig skipuð: Formaður er Páll Ragnarsson, skrifstofustjóri Siglingamálastofnunar ríkisins. Aðrir nm. eru Gunnar Hafsteinsson skrifstofustjóri, tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna, Henrý Hálfdánarson skrifstofustjóri, tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Ingólfur Þórðarson skipstjóri, tilnefndar af Slysavarnafélagi Íslands og Sigfús Bjarnason framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sjómannasambandi Íslands.