02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í D-deild Alþingistíðinda. (4540)

214. mál, Umferðarráð

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Fsp. þessi, sem fram er borin af hv. 4. þm. Reykv., er til komin vegna afgreiðslu Alþingis á fjárveitingu til starfsemi umferðarráðs á yfirstandandi ári. Í því sambandi er rétt að taka það fram, að umferðarráð var allsíðbúið með sína áætlun fyrir yfirstandandi ár, sem meðfram mun hafa stafað af því, að ráðið hefur ekki talið sér fært að semja þá áætlun fyrr á árinu, áður en fyrir lægi nokkurn veginn vitneskja um einstaka kostnaðarliði starfseminnar á árinu 1970. Áætlunin barst því ekki rn. fyrr en seint í nóvembermánuði og var að örfáum dögum liðnum send þaðan til fjvn. Nefndin hefur ugglaust verið störfum hlaðin, þegar komið var fram undir nóvemberlok, og það má gera ráð fyrir, að hún hafi kannske haft takmarkaðan tíma til þess að athuga þessa áætlun umferðarráðs, en till. fjvn. um 900 þús. kr. fjárveitingu lá ekki fyrir fyrr en daginn, sem 3. umr. fjárlaga fór fram, eða ég hafði a. m. k. ekki fyrr séð hana, og var þá ekki orðið mikið svigrúm til frekari athugunar á málinu.

Það er rétt, að það komi fram hér einnig, að auk þeirrar fjárveitingar, 900 þús. kr., sem Alþ. afgreiddi, þá hefur umferðarráð til ráðstöfunar á þessu ári ógoldin mótframlög frá fyrra ári, annars vegar frá sveitarfélögum vegna umferðarskólans, Ungir vegfarendur, og frá tryggingafélögunum vegna útgáfustarfsemi, þar sem um er að ræða ritið Ökumanninn, og einnig hefur ráðið til ráðstöfunar framlög sömu aðila fyrir yfirstandandi ár. Það lætur því nærri, að allt þetta samanlagt, fjárveiting og mótframlög, nái allt að þrefaldri upphæð fjárveitingarinnar.

Í janúarmánuði tók umferðarráð í samráði við rn. áætlun sína frá s. l. hausti til endurskoðunar. Jafnframt sneri umferðarráð sér til nokkurra aðila með hugsanlegt samstarf við þá fyrir augum og þá mótframlög, sem þaðan kæmu, en að sjálfsögðu var þegar á seinasta ári fyrir hendi samstarf við þá aðila, sem ég áður nefndi. Þar sem viðræður við þessa nýju aðila eru enn á byrjunarstigi, er ekkert hægt að fullyrða um það, til hvaða árangurs þær muni leiða. En mér er tjáð, að það hafi verið a. m. k. á þessu stigi vinsamlega í málin tekið af þessum aðilum. Þessi endurskoðaða áætlun umferðarráðs barst mér fyrir nokkru, og hún er nú til athugunar í rn. Á þessu stigi get ég raunverulega aðeins svarað því, að það mun verða séð um, að umferðarráð fái til ráðstöfunar aukið fé, eftir því sem niðurstöður af athugun rn. gefa tilefni til. Ég treysti mér ekki til að gefa ítarlegri svör við fsp. hv. þm., meðan þeirri athugun er ekki lokið.