02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í D-deild Alþingistíðinda. (4541)

214. mál, Umferðarráð

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, þó að ég verði hins vegar að harma það, að þau voru harla óljós. En mér skildist það á ráðh., að þessi mál væru enn þá til í athugun og það væri enn alveg óráðið, hve miklu fjármagni yrði varið til þessarar starfsemi og hvernig henni verður þess vegna háttað á þessu ári. En ég held, að öllum þingheimi hljóti að vera það ljóst, að hér er um mikið vandamál að ræða, sem krefst skjótrar úrlausnar. Við sjáum það daglega í blöðum og heyrum það í fjölmiðlum, að umferðarslysum fer fjölgandi og jafnhliða vex að sjálfsögðu það margvíslega tjón, sem þeim er samfara. Þess vegna má ekki horfa á það aðgerðalaust, að það sé ekkert gert í þessum efnum.

Ég held, að þó að þessi áætlun umferðarráðs hafi verið mjög rífleg, þá sé þó vafalaust hægt að færa rök fyrir því, að það sé þörf miklu víðtækari starfsemi í þessum efnum en þar er gert ráð fyrir, ekki sízt er þörf fyrir aukna fræðslustarfsemi. Ég vil þess vegna vænta þess, að út úr þessari athugun, sem hæstv. ráðh. var að tala um, komi ekki samdráttur frá því, sem gert er ráð fyrir í till. umferðarráðs, heldur miklu frekar aukning. Og ég verð nú að segja það, að annað eins hefur nú gerzt hjá ríkinu áður, að komið hafi til aukaframlaga umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Og mér virtist það koma fram hjá hæstv. ráðh., að þarna hafi eiginlega verið um mistök að ræða hjá fjvn., að ráðið fékk ekki hærri fjárveitingu í fjárlögum en raun ber vitni um. Þess vegna finnst mér eðlilegt, að ríkisstj. hlutist til um það, dómsmrh. og fjmrh., að það verði veitt úr ríkissjóði einhver aukafjárveiting í þessum efnum. Það hefur áreiðanlega átt sér stað aukafjárveiting hjá ríkissjóði til óþarfari mála en þess, sem hér ræðir um.