02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í D-deild Alþingistíðinda. (4551)

355. mál, þingskjöl og Alþingistíðindi

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þær fróðlegu upplýsingar, sem hann hefur hér gefið um þetta atriði, og skal ekki á þessu stigi máls fara um þær mörgum orðum né um það mál, sem ég hef hreyft með þessari fsp. minni.

Það kemur í ljós, eins og hv. alþm. munu nú raunar flestir hafa vitað, að það hefur orðið verulegur dráttur á því, að umræðupartur Alþingistíðinda kæmi út. Það er upplýst með svari hæstv. ráðh., að það er að mestu lokið prentun frá þinginu 1964–1965, og síðan er hafin að litlu leyti prentun á umræðum á þremur næstu þingum þar á eftir.

Það held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að þessi prentun á umræðum, þegar þær eru orðnar 6–7 ára gamlar, nái tæplega tilgangi sínum. Að sjálfsögðu þurfa þeir aðilar, sem þess óska, að hafa aðgang að því, sem sagt hefur verið á Alþ., en ég er nú ósköp smeykur um, að þeir verði ekki ýkja margir, sem lesa 6–7 ára gamlar umræður sér að gagni, en skal þó ekki fara fleiri orðum um það. Ef mig misminnir ekki, þá er í gamanbréfi því, sem Jónas Hallgrímsson skrifaði og flestir kannast við, þegar hann sagði frá ferð drottningarinnar á Englandi til Frakkakonungs, einhvers staðar komizt þannig að orði, að þegar Frakkakonungur vissi, að von var á þessum tignu gestum, þá kallaði hann í þjón sinn, Gulzot, en Gulzot gegndi ekki, því að hann lá sunnan undir vegg og var að lesa sjö ára gamlan Skírni, sem bókmenntafélagsdeildin á Íslandi var nýbúin að senda honum. Þetta þótti ágæt fyndni á sínum tíma og var sennilega hæfilega ýkt. Nú gerist þetta árlega, að okkur er boðið upp á það og þeim u. þ. b. 1000 aðilum, sem eiga þess kost að fá prentaðar umræður í Alþingistíðindum, að setjast út undir vegg og fara að lesa sjö ára gamlar umr.

Ég er þeirrar skoðunar og það engu síður eftir þau svör, sem nú hafa fengizt, að það sé full ástæða til að athuga þetta útgáfufyrirkomulag, og ég er sannfærður um, að það þarf ekki að bíða lengur eftir nýrri tækni til þess að gera prentun bæði þingskjala og Alþingistíðinda til muna ódýrari, handhægari og fljótvirkari en hún er með því gamaldags og þunglamalega fyrirkomulagi, sem á þeim málum er haft. Ég vil mega beina þeirri ósk til hæstv. forsrh., að hann athugi nú þetta mál, gjarnan í samráði við skrifstofustjóra að sjálfsögðu og forseta Alþingis og e. t. v. formenn þingflokkanna, og það verði látin fara fram á því athugun, hvort ekki sé hægt að koma hér við breytingum, þannig að þessi mál komist í betra horf, og þá á ég alveg sérstaklega við prentun umræðupartsins. Ég tel t. a. m. alveg sjálfsagða ráðstöfun, úr því sem komið er, að byrja strax á næsta þingi á prentun umræðna, sem þá yrðu, og reyna að ljúka henni ekki mjög löngu eftir þinglok. Það gerði þá jafnvel minna til, þó að það tæki eitthvað lengri tíma að vinna upp þessi 5–6 eða 7 ár, sem liggja nú að miklu leyti fyrir óprentuð. Ég æski þess, að hæstv. forsrh. vildi athuga það mál, hvort hann sæi ekki ástæðu til þess að láta fara fram könnun á þessu atriði.