02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í D-deild Alþingistíðinda. (4552)

355. mál, þingskjöl og Alþingistíðindi

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er fullkomlega löglegt og rétt að þm. beini fsp. sem þessari til hæstv. forsrh., því að samkvæmt verkaskiptingu ráðh. heyra málefni Alþingis undir forsrh. Hins vegar finnst mér, að þetta sé eitt af þeim málum, sem Alþ. ætti að reyna að halda örlítið í eigin sjálfstæði og bera örlitla virðingu fyrir skiptingu valdsins. Það er stjórnskipulega óhjákvæmilegt að forsrh. fari með viss mál varðandi Alþingi, en þingið á að vera sem sjálfstæðast í þessum efnum. Mér finnst að þetta eigi að vera algerlega málefni þeirra embættismanna sem við kjósum til þess að veita þinginu forustu og að forsrh. eigi ekki að þurfa að eyða tíma sínum í að standa í athugunum á því, hvernig bezt sé að prenta það, sem sagt er hér á Alþingi.

Ég er fullkomlega sammála því, sem sagt hefur verið, að prentun á umræðuparti Alþingistíðindanna er óviðunandi og sennilega að mestu leyti gagnslaus. Það eru veittar á fjárlögum 5 millj. kr. í þessa prentun, og eins og hv. fyrirspyrjandi hefur lýst er harla lítið gagn, sem af þessu verður. Það er augljóst hverjum manni að gagnið af útgefnum umr. frá Alþ. er fyrst og fremst næst umr. sjálfum í tíma, fyrstu vikur og mánuði eftir að þær fara fram. Við vitum, að í öðrum löndum, þar sem hægt er að koma þessu betur fyrir, er ekki sízt það gagn af prentun ræðuparts, að hægt er mjög fljótlega að senda fólki í landinu, sem hefur sérstakan áhuga á viðkomandi umræðuefni, ræðurnar í heild. Það er að vísu hægt að taka ljósrit eftir vélrituðum síðum hér frammi, en það er þungt í vöfum.

Ég vil taka undir þetta, en ég vil leggja sérstaklega áherzlu á það, sem hæstv. forsrh. sagði undir lokin í svari sinu, að menn mega ekki mæna á þá aldargömlu tækni, sem í dag er í aðalatriðum notuð við prentun á þessum plöggum, heldur verður að athuga mjög gaumgæfilega nýja tækni. Það hafa orðið slíkar framfarir í prentunartækni nú undanfarið, að það hlýtur að vera hægt að finna greiðari leiðir. Ég get vel ímyndað mér þó að ég þekki ekki mikið til þessara mála, að einhvers konar offsetprentun beint af vélritun ræðunnar hljóti að vera það sem leysir þetta bezt og fljótlegast, þannig að við getum sloppið við hvern liðinn á fætur öðrum: endurvélritun, vélsetningu og allar þær prófarkir, sem nú eru við þessa gömlu prentunaraðferð.

Ég vil einnig benda á þá leið, sem getur mjög fljótlega komið til greina, að gefa ræðupartana út og jafnvel geyma þá á segulbandi. Það er þegar farið að gefa allmikið út á segulböndum hér á landi af efni, sérstaklega á sviði bókmennta og tungumálakennslu, og tæki til að leika einföldustu segulbönd eru að verða svo að segja á hverju heimili. Þar opnast heilt stórt tæknisvið sem þarf líka að athuga í sambandi við þetta.

Ég vil taka mjög undir þau orð hæstv. ráðherra úr því svari, sem hann las frá skrifstofustjóra Alþingis, að í þessu máli verður fyrst og fremst að leita eftir nýrri tækni og hvað sem það kostar verður að koma þessu í betra horf.