02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í D-deild Alþingistíðinda. (4553)

355. mál, þingskjöl og Alþingistíðindi

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hef reyndar engu við að bæta, ég ætlaði aðeins að tjá mig reiðubúinn til samstarfs við þingið um nýjar vinnuaðferðir og hagkvæmari á þessu sviði, ef því væri að skipta. En ég er alveg sammála hv. síðasta ræðumanni, að mér finnst, að Alþ. sjálft eigi að hafa forustuna og þá fyrst og fremst forsetar þingsins og starfsmenn, skrifstofustjóri og skrifstofa, ásamt og í samráði við þingflokkana. Við höfum búið allt of illa að skrifstofu Alþingis, og er það okkur öllum til háborinnar skammar.

Það er eflaust alveg rétt, að það er fyrst og fremst ný tækni, sem hér gæti komið til greina, og þá kannske líka ný tilhögun, eins og t. d. að gefa út í smáheftum viss mál. Sum mál vekja miklu meiri athygli en önnur, og það þarf ekki endilega að bíða eftir, að þetta komi allt í heftum fyrir meiri hluta þingsins eða stóran hluta af þinginu. Mundi sjálfsagt ýmsum þykja fengur í því að geta fengið viss tiltekin mál, sem væru þá gefin út prentuð í heftum smátt og smátt. Ég vil líka auðvitað hafa samvinnu og samstarf við hv. þm. Gils Guðmundsson, 5. þm. Reykn., sem sjálfur hefur veitt forstöðu mikilli útgáfustarfsemi, sem hins vegar sumum hefur nú fundizt að mætti gusta svolítið meira af.