09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í D-deild Alþingistíðinda. (4560)

353. mál, flugvallargerð á höfuðborgarsvæðinu

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Eins og hv. þm. er öllum kunnugt, hafa þessi flugvallarmál verið á dagskrá nú um nokkuð langan tíma. Það hefur verið starfandi nefnd í sambandi við þetta og komið fram hjá henni fleiri en ein till. í sambandi við flugvallargerð. Það, sem að mínum dómi hefur virzt vera ríkjandi hjá þeirri nefnd, sem hefur haft þetta mál til skoðunar, er, að það sé ekki nema um einn einasta stað að ræða til þess að byggja flugvöll, er mundi leysa þann flugvöll af hólmi, sem nú er notaður fyrir innanlandsflug, þ. e. flugvöllinn hér í Reykjavík, en í skipulagi Reykjavíkurborgar er ekki gert ráð fyrir þeim flugvelli eftir 1983. Ég hefði álitið öllu skynsamlegra, að það hefði verið leitað til fleiri staða, ef ekki verður á annað borð hægt að nota Keflavíkurflugvöll bæði fyrir utanlandsflugvöll og innanlandsflugvöll. Ég er þeirrar skoðunar, að eftir að Reykjanesbrautin hefur verið lögð og þegar verið er enn að bæta vegagerð hér suður á Reykjanesið, þá sé sá tími, sem fari í það að aka til Keflavíkurflugvallar, hverfandi og þá komi menn til með að sjá, að það er skemmra til flugvallar hér hjá okkur á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi heldur en annars staðar.

Það er út af fyrir sig ekkert við það að athuga, að ráðh., sem fer með þessi mál, kaupi jarðir á mjög þýðingarmiklum svæðum hér á höfuðborgarsvæðinu, en ég er alveg ósammála hv. 2. þm. Reykn., að það sé á valdi ráðh. eða flugmálastjórans að ákveða það, hvar og hvenær flugvöllur verður byggður. Það getur ekki nema Alþ. Það hlýtur að verða Alþ., sem ákvarðar það, hvar nýr flugvöllur verður byggður og þá hvenær, og m. a. í sambandi við það fluttum við hér þm. Reykn. á s. l. þingi frv. til l. um, að þetta svæði, sem hér er um rætt, verði sérstaklega varið og það útbúið, eins og þar var sagt, sem fólkvangur, gert ráð fyrir byggð, en það náttúrulíf og það sérkennilega svæði verði varið, til þess að fólk hér á höfuðborgarsvæðinu hafi tækifæri til útivistar.

Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram og leggja á það höfuðáherzlu, að það hlýtur að vera hv. Alþ., sem ákvarðar um byggingu flugvallar, en hvorki ráðh. eða flugmálastjórinn, eins og hv. 2. þm. Reykn. gerði ráð fyrir. Ég er honum hins vegar sammála um, að það ætti að taka ákvörðun um það hið fyrsta af Alþ., að á Álftanesi yrði ekki byggður flugvöllur í framtíðinni.