09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í D-deild Alþingistíðinda. (4561)

353. mál, flugvallargerð á höfuðborgarsvæðinu

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Að því er ég bezt veit eru skipulagsmál á Álftanesi á því stigi nú, að fyrir skömmu hefur hreppsnefnd Bessastaðahrepps fengið heildarskipulag af hreppnum að öðru leyti en því, að haldið mun vera eftir svæði vegna hugsanlegs flugvallar, en það svæði tekur til þriggja jarða, þeirra, sem hæstv. ráðh. nefndi hér áðan. Nú veit ég ekki, við hvað skipulagsstjóri eða rn. styðst í ákvörðun sinni varðandi þessar jarðir. Ég minnist þess ekki, að Alþ. hafi á neinn hátt mælt fyrir um slíkar ráðstafanir, og hér mun ekki vera um það að ræða, að beitt hafi verið ákvæðum 12. gr. skipulagslaga, þar sem gert er ráð fyrir því, að fresta megi í allt að 10 ár ákvörðun um skipulagningu á hluta af svæði, sem fellur undir svæðaskipulag, þ. e. skipulag, sem tekur til samliggjandi sveitarfélaga. Um hvorugt skilst mér, að sé að ræða, beitingu þessa sérstaka ákvæðis í skipulagslögum eða sérstaka ákvörðun Alþ. En ég tel nauðsynlegt, að Alþ. hugi að þessari ráðstöfun að halda eftir landssvæði, sem tekur til þriggja jarða, vegna þess að mér sýnist, að mál standi nú svo varðandi þessa jarðeigendur, að þegar þeim eru meinuð réttindi til að byggja á jörðum sínum eins og aðrir hreppsbúar, þá geti þeir hvenær sem er krafizt eignarnáms á jörðum sínum öllum eða a. m. k. þeim hluta af jörðunum, sem ætlað er að fara undir þennan hugsanlega flugvöll. Nú má vel vera, að það geti talizt rétt eða réttlætanlegt, að ríkið eignaðist þessar jarðir eða hluta þeirra, hvað sem flugvelli líður, hvort sem af byggingu hans yrði eða ekki, en alla vega sýnist mér, að það sé Alþ. sjálft, sem eigi að taka ákvarðanir um þessa hluti, en málin eigi ekki að bera að á þann veg, að rn. eða aðrar stofnanir ríkisins grípi til ráðstafana, sem sjálfkrafa kalla fram skyldur ríkisins til kaupa á löndum, án þess að áður liggi fyrir ótvíræður vilji Alþ. um þau kaup. Ef svo er, að með því að taka frá land á Álftanesi sé verið að binda ríkið skyldum til þess að kaupa landið, ef landeigendur krefjast, tel ég, að verið sé að fara aftan að hlutunum og verið sé að gera ráðstafanir, sem Alþ. sé síðan ætlað að standa frammi fyrir sem gerðum hlut. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðh., hvort hann telji, að sú ákvörðun að taka frá land eða hluta af landi þriggja jarða á Álftanesi, þegar gengið er frá skipulagi á þessu svæði, hafi þær afleiðingar, að ríkinu sé e. t. v. þess vegna nú þegar skylt að kaupa þessar jarðir eða hluta þeirra, ef farið er fram á það, og ef svo er, hvers vegna málið hafi ekki verið lagt fyrir Alþ., áður en til slíkrar skyldu væri stofnað, og reynt á það, hvort meirihlutavilji væri fyrir því á hv. Alþ., að ríkið tæki eignarnámi lönd á Álftanesi.