09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í D-deild Alþingistíðinda. (4562)

353. mál, flugvallargerð á höfuðborgarsvæðinu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú eðlilegt, að nokkrar umr. verði um þetta mál, þegar það ber hér að á hv. Alþ.

Hv. fyrirspyrjandi var ekki alveg ánægður með mín svör, og hafði ég þó vonazt eftir því, að í svörunum fengi hann allt, sem hann vildi vita um þessi mál. En hv. þm. talaði um langan drátt til ákvörðunar á þessu máli, drátt, sem hefði orðið þjóðinni til skaða og flugmálunum til óþæginda. Það er mikill misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda, ef hann heldur, að hér sé um óhæfilegan drátt að ræða. Eins og fram kom í svari mínu áðan, þá voru gerðar tilraunir með það að prófa annað flugvallarstæði heldur en Álftanes, sem er Kapelluhraun. Það er ódýrast að gera flugvöll þar, og ef þessi staður hefði verið heppilegur frá flugtæknilegu sjónarmiði, þá væri ekkert áhorfsmál að gera þar flugvöll fyrir innanlandsflugið. En eftir ítarlegar athuganir, sem ekki var lokið fyrr en í haust, og þegar álit kom frá flugmálastjórninni og flugöryggisstjóranum 8. des., þá kemur það í ljós að Kapelluhraun er ekki sá heppilegi staður, sem menn höfðu búizt við. Og sannleikurinn er nú sá, að það getur verið dýrast að flýta sér of mikið og taka ákvarðanir um framkvæmdir án þess að hafa rannsakað málin til hlítar áður. Og ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi ætlist ekki til þess, að þannig sé unnið að málunum, þótt þannig mætti skilja hann áðan.

Það er nú svo, að það er gert ráð fyrir því, að Reykjavíkurflugvöllur verði notaður a. m. k. til ársins 1958 og kannske lengur. Og það vill svo til, að ríkið á landið að langmestu leyti undir Reykjavíkurflugvelli, og allir vita nú það, hvort land hér í Reykjavík, sem býður sig fram til þess að verða lóðir undir íbúðarhús, er að lækka í verði eða ekki. Gæti það ekki verið, að ef land á Álftanesi hefði hækkað í verði s. l. þrjú ár, hefði land, sem ríkið á á Reykjavíkurflugvelli, hækkað nokkru meira, þannig að ríkið beinlínis gæti hagnazt á drættinum? Og þegar ekki er um það að ræða að leggja niður Reykjavíkurflugvöll að sinni, þá er vissulega nógur tími til athafna og ekki ástæða til þess að rasa um ráð fram, heldur gera það, sem skynsamlegast er í þessu máli. Það er þess vegna mishermi hjá hv. fyrirspyrjanda, þegar hann talar um, að þjóðin hafi skaðazt um fjárhæðir í þessu tilliti.

Þá talar hv. fyrirspyrjandi um óþægindi Bessastaðahrepps. Hann talar um það, að ekki hafi verið hægt að skipuleggja þarna í hreppnum landið og ekki láta land undir íbúðir, vegna þess að dráttur hafi verið mikill hjá flugmálastjórn. Þetta er algerlega út í hött, því að það er langt síðan rn. skrifaði hreppsnefnd Bessastaðahrepps og tilkynnti, að það væri ekkert til fyrirstöðu frá rn. hálfu að skipuleggja byggingarlóðir í Bessastaðahreppi að undanteknum þessum þrem jörðum, sem hér hefur verið minnzt á. Bréfið er dagsett 2. júlí og hljóðar svo:

„Í framhaldi af bréfi rn., dags. 4. júní 1967, og með skírskotun til viðræðna við yður varðandi hugsanlega flugvallargerð á Álftanesi, vill rn. taka fram eftirfarandi:

Ákveðið er, að ekki kemur til flugvallargerðar samkv. till. minni hl. síðustu flugvallarnefndar, sem nefnd hefur verið L. Till. meiri hl. nefndarinnar, sem nefnd hefur verið till. X, er enn í athugun, og verður væntanlega unnt að taka endanlega afstöðu í málinu á næsta vetri.“ — En það var verið að bíða eftir endanlegri athugun á Kapelluhrauni, eins og áður hefur verið sagt, og þess vegna dróst sú ákvörðun. — „Rn. sér því ekkert því til fyrirstöðu, að Álftanessvæðið verði skipulagt og leyfðar á því byggingar, nema þar sem þessi till. nær til, sem mun vera Bessastaðanes og land jarðanna Breiðabólstaðar og Arakots.“

Talið er, að stór hluti af því landi, sem fylgir þessum jörðum, sé ekki heppilegt til íbúðarbygginga. Það er því algerlega orðum aukið, að dráttur sá, sem hér er talað um, hafi tafið fyrir því, að hægt væri að skipuleggja Bessastaðasvæðið. Hreppurinn býr ekki við fámenni af þeim ástæðum.

Þá var minnzt á það hér áðan, að rétt væri að athuga, hvort Keflavíkurflugvöllur gæti ekki þjónað bæði innanlandsflugi og utanlandsflugi. Ég tel það alveg fráleitt. Það er alveg útilokað að ætlast til þess, að Keflavíkurflugvöllur verði fyrir innanlandsflugið. Það mundi skapa ótrúlega mikil óþægindi fyrir fólk, sem ætlar að fljúga út á land. Það er komið til Keflavíkur, ætlar að fljúga, við skulum segja til Ísafjarðar, og þá er allt í einu orðið ófært þar, því að veðrið hefur versnað. Sama gildir, hvert sem flogið er. Það getur komið fyrir, að þegar fólkið væri komið út á flugvöll, þá væri ófært að fljúga til þess staðar, sem átti að fara til. Það væri stórt spor aftur á bak og er ekki boðlegt að hugsa sér það, að Keflavíkurflugvöllur verði fyrir innanlandsflugið, en það er sjálfsagt, að hann verði notaður sem millilandaflugvöllur.

Þá er talað um það, hvar valdið sé til þess að kaupa land og til þess að taka endanlega ákvörðun í þessu máli. Rn: hefur nú aldrei efazt um það, að ef hægt er að gera samningstillögu og ná samkomulagi við eigendur jarðanna á Álftanesi, þá verður að bera það undir Alþ., hvort slík kaup verða samþykkt. Og rn. hefur aldrei efazt um það, að áður en byrjað verður að gera flugvöll, hvort sem það verður á Álftanesi eða annars staðar, þá verður að bera það undir Alþ., en rn. hefur talið það skyldu sína að gera till. í þessu máli til Alþ. og leita eftir samþykkt þess um það, sem að vel athuguðu máli er talið vera skynsamlegast. Og þetta er í rauninni það, sem ég þurfti að segja við hv. síðasta ræðumann. Það er í rauninni sama svarið til hans og 1. þm. Reykn. varðandi ákvörðun Alþ. og varðandi hlutverk rn.