09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í D-deild Alþingistíðinda. (4567)

353. mál, flugvallargerð á höfuðborgarsvæðinu

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem hér hafa spunnizt varðandi flugvallargerð á Álftanesi, og það, að mjög er skírskotað til skipulags Reykjavíkurborgar miðað við 1985 og þess skipulagsuppdráttar, sem mér er ekki ljóst, hvort er samþykktur af þar til bærum aðilum, þá vildi ég mega beina því til hæstv. ráðh., að eins og tekið er tillit til þess skipulagsuppdráttar og skipulags Reykjavíkurborgar, þá verði ekki síður tekið tillit til þeirra sveitarfélaga, sem liggja enn þá nær því svæði, sem gert er ráð fyrir í þeim umr., sem hér hafa farið fram, að flugvöllur verði byggður á. Þar á ég við sveitarfélögin í Kópavogi, Garðahreppi og Hafnarfirði, sem ég held, að hafi látið til sín heyra í sambandi við þetta mál.

Ég vil svo aðeins ítreka þá hugmynd, sem hér hefur komið fram á þingi í sambandi við verndun þessa svæðis, og af því að ég tók svo eftir í ræðu hæstv. ráðh. áðan, að hann segði, að rn. væri búið að gera till. í þessu máli, þá langaði mig til þess að spyrja, hvar þá till. væri að finna.

Ég veit, að flugvallarnefndin hefur klofnað og gerir tvær mismunandi till., en ég veit hins vegar ekki til og hef ekki orðið var við, að rn. eða ríkisstj. sé búin að gera till. um byggingu flugvallar á Álftanesi, né heldur þá, með hvaða hætti sá flugvöllur yrði byggður. Fari ég með rangt mál eða hafi ekki athugað nógu vel, hvar þessa till. er að finna, þá hygg ég, að hæstv. ráðh. upplýsi mig um það.

Í sambandi við skipulagið á Álftanesi, þá hefur, held ég, örlítið borið hér á milli. Það er rétt, sem ráðh. hefur getið um, að með bréfi 2. júlí og með bréfi frá árinu áður hefur rn. sem slíkt leyst eða losað hreppinn við þá kvöð, sem á var sett í sambandi við skipulagið, og það bréf barst skipulagsstjóra, en engu að síður, ég segi engu að síður og þrátt fyrir að rn. hefur losað það bann eða tekið af það bann, sem það hafði áður sett, þá hefur skipulagsstjóri ekki viljað fara í skipulagningu á öðrum svæðum þar á Álftanesi, þannig að leyfið frá rn. hefur verið veitt, en skipulagsstjórn ríkisins hefur ekki notfært sér það leyfi, og það hefur verið í trássi við þá aðila, sem eru forsvarsmenn íbúa í Bessastaðahreppi.