09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í D-deild Alþingistíðinda. (4569)

353. mál, flugvallargerð á höfuðborgarsvæðinu

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Um þessar mundir eigum við við að stríða norður í landi einhverja verstu deilu, sem hér hefur komið upp, og hefur hún sprottið af opinberum framkvæmdum, sem þar voru fyrirhugaðar. Ég held, að flestir séu sammála um það, að við hefðum getað komizt hjá þessari dellu að öllum líkindum, ef fyrr hefði verið tekið tillit til ýmissa sjónarmiða, sem hafa nú í mjög hraðvaxandi mæli áhrif á fólk í þessu landi, svo sem náttúruumhverfis og annars slíks, á meðan málið var á undirbúningsstigi. Ég rifja þetta upp, vegna þess að mig langar fyrst og fremst til þess að varpa fram þeirri spurningu í sambandi við undirbúning á væntanlegri flugvallargerð á Reykjavíkursvæðinu og þá einna helzt á Álftanesi, hvort þetta mál hafi verið athugað frá einhverjum fleiri sjónarmiðum en bara sjónarmiðum flugmálaáhugamanna og hagsmunamanna. Þær nefndir, sem talað er um, eru flugvallarnefndir, og í þeim eru að sjálfsögðu sérfræðingar í þeim efnum. En hefur rn., sem virðist vera svo að segja tilbúið með till. í þessu máli, að því er ráðh. segir, talað við heilbrigðisyfirvöld á þessu svæði, hefur það talað við náttúruverndarnefnd á þessu svæði, hefur það talað við þá, sem hafa með félagsmál íbúanna á þessu svæði að gera, hefur það athugað þessi mannlegu sjónarmið og spurt þessa aðila, hvort þeir telji æskilegt og hvort þeir telji heilbrigt að fá slíkt mannvirki sem stóran flugvöll sett niður á mitt mesta þéttbýlissvæði þjóðarinnar? Ég vil bæta einni spurningu enn við: Hefur hæstv. ráðh. spurt forseta Íslands, sem býr þarna, hvaða álit hann hafi frá sínu embættissjónarmiði á því að fá flugvöll fyrir utan svefnherbergisgluggann hjá sér? Það mætti nefna ýmsa fleiri aðila, sem eðlilegt væri miðað við nútíma viðhorf að spyrja um þessa hluti, og ég vil aðeins vara við því, að menn gangi of langt í ákvörðunum og tillögugerð, áður en þessar hliðar, hinar mannlegu umhverfishliðar, hafa verið kannaðar til hlítar. Við ættum að hegða okkur eins og brennt barn og reyna að læra af reynslunni. En því vil ég spá, að ef yfirvöld halda því fast fram að byggja stóran flugvöll á Álftanesi, þá muni rísa á Reykjanessvæðinu mótmælaalda almennings, sem muni ekki verða minni, ef ekki töluvert miklu meiri en nokkuð það, sem við höfum kynnzt í þeim efnum til þessa.