09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í D-deild Alþingistíðinda. (4577)

356. mál, þungaskattur

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 371 hef ég ásamt hv. 5. þm. Austf. leyft mér að flytja fsp. til hæstv. samgrh. út af innheimtu á þungaskatti af bifreiðum. Fsp. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hafa tekjur Vegasjóðs af þungaskatti reynzt svipaðar og áður, eftir að farið var að innheimta hann samkv. ökumati, en ef svo er ekki, hafa þær þá aukizt eða minnkað?

2. Er fyrirhuguð endurskoðun á gjaldskrá fyrir þungaskatt?

3. Telur ráðh., að núgildandi fyrirkomulag um álagningu þungaskatts geti orðið til frambúðar, þótt af því leiði mjög aukinn mismun á flutningskostnaði til byggðarlaga eftir fjarlægð þeirra frá markaðsstað.“

Ástæðan til þess, að ég og við hv. 5. þm. Austf. gerum þessa fsp., er sú, að þegar breytt var yfir í gjaldmæla frá þeirri reglu, sem áður hafði gilt um innheimtu á þungaskatti, þá var því haldið fram, að breytingin mundi ekki leiða af sér aukið gjald hjá bifreiðum yfirleitt, nema þá hjá þeim, sem mest keyrðu. Reglan mundi verða slík, að ekki væri um nýja álagningu að ræða í sambandi við þungaskattinn. Og ég minnist þess, að þegar breyting var gerð á vegalögunum fyrir jólin í vetur, þá rökstuddi hæstv. samgrh. þá breytingu á þungaskattinum þannig, að með henni væri unnið upp aftur það hlutfall, sem hefði breytzt í innheimtu á þungaskatti miðað við benzínskatt frá því vorið 1969, þegar benzínskatti var breytt, en þungaskatti ekki. Nú hafa hins vegar farið fram nokkrar umr. í landinu, bæði blaðaskrif og ræður manna, sem bent hafa á, að það hafi orðið veruleg breyting á þungaskattinum með þessari breyttu innheimtuaðferð og þessi breyting leiði til þess, að þeir, sem lengst búa frá aðalmarkaðsstaðnum, Reykjavík, þurfi að greiða miklu meira en áður, svo að þetta verði til þess að auka enn á það misrétti, sem er á milli fólksins í landinu, eftir því hvar það er búsett. Af þeirri ástæðu er nú þessi fsp. fram komin, og vildi ég nú heyra, hvað hæstv. ráðh. hefur um hana að segja.