09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í D-deild Alþingistíðinda. (4578)

356. mál, þungaskattur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Vegna vinnustöðvana í júní 1970 var ekki unnt að láta hið nýja innheimtukerfi á þungaskatti af dísilbílum yfir fimm tonn að eigin þunga taka gildi 1. júlí 1970, eins og áformað hafði verið, og var ákveðið, að þessi nýja innheimtuaðferð tæki gildi 1. ágúst 1970. Hér var miðað við bifreiðaskrá alls um að ræða 1900 bifreiðar, sem hið nýja innheimtukerfi náði til. Hins vegar voru tæknilegir annmarkar á ísetningu mælanna í sumar tegundir bifreiðanna, og þurfti að smíða sérstök millistykki til að koma mælunum fyrir, og einnig þurfti að athuga á hverri bifreið fyrir sig af þeim, sem eru með framdrifi og urðu að nota svonefnda ökurita, á hvern hátt unnt væri að koma þeim fyrir í stað mæla. Allt þetta olli því, að mælarnir hafa verið að koma í notkun smátt og smátt allt til þessa, og um síðustu áramót voru mælar eða ökuritar í stað mæla komnir í notkun í 1805 bifreiðar af u. þ. b. 1900, sem nýja kerfið gæti náð til miðað við bifreiðaskrá 1970. Hins vegar er ekki vitað, hve margar þeirra bifreiða, sem margar eru gamlar, hafa nú verið afskráðar, og það kann að vera meginhlutinn af þessum bifreiðum og kemur vitanlega í ljós nú næstu vikurnar. Af þessu leiðir, að enn liggur ekki fyrir álestur, sem sýnir notkun allra þeirra bifreiða, sem hið nýja kerfi á að ná til, á heilum ársfjórðungi, hvað þá lengri tíma.

Afleiðingin af þessu er, að erfitt er að segja með fullri nákvæmni, hvort hið nýja kerfi gefur Vegasjóði meiri tekjur en hið gamla gerði. Þó liggur nú fyrir, að þungaskattur samkv. ökumæli af hinum 1805 bifreiðum, sem mælar voru komnir í um s. l. áramót, nemur um 5.8 millj. kr. meira en þungaskattur af sömu bifreiðum mundi hafa numið eftir gamla kerfinu eða 9.9%.

Athugandi er, að þessar bifreiðar hafa sumar hverjar ekki fengið ökumæli fyrr en nokkru eftir 1. ágúst og því einnig greitt þungaskatt samkv. eldri reglunum fram að þeim tíma. Afleiðingin af þessu mundi vera, að mismunurinn mundi hækka sem þessari greiðslu samkv. eldri reglunum nemur hjá viðkomandi bifreiðum. Hins vegar er ekki á þessu stigi málsins unnt að segja nákvæmlega fyrir um, hverju þessi viðbót kann að nema.

Samkv. framansögðu virðist mega ætla, að þungaskattur á viðkomandi bifreiðum hafi aukizt um u. þ. b. 10%. Hins vegar verður einnig að hafa í huga, að þungaskattur samkv. ökumæli er mismunandi eftir árstímum og verkefnum, en s. l. ár var atvinna með meira móti, eins og kunnugt er.

Þá er spurt að því, hvort fyrirhuguð sé endurskoðun á gjaldskrá fyrir þungaskatt. Við breytingu á vegalögum, sem gekk í gildi 1. jan. þ. á., var hinn almenni þungaskattur hækkaður um 50%. Gert er ráð fyrir, að þessi hækkun nái einnig til kílómetragjaldsins og breyting þeirra verði gefin út fyrir næsta álestur í lok þessa mánaðar. Áður hefur verið lofað, að afsláttur verði gefinn á kílómetragjaldinu fyrir þær bifreiðar, sem ekið er yfir 30 þús. km árlega. Er í athugun, hve mikill sá afsláttur getur orðið miðað við það, að Vegasjóður haldi tekjum samkv. því, sem áður var áætlað, en gert er ráð fyrir, að það verði ákveðið í sambandi við fyrrnefnda reglugerðarbreytingu. Má reikna með, að sá afsláttur verði talsverður, afsláttur, sem um munar.

Þá er spurt, hvort ráðh. telji, að núgildandi fyrirkomulag um álagningu og þungaskatt geti orðið til frambúðar, þótt af því leiði mjög aukna mismunun á flutningskostnaði til byggðarlaga eftir fjarlægð þeirra frá markaðsstað. Benda má á, að Alþ. hlýtur að hafa verið ljóst, er það veitti ráðh. heimild til að innheimta þungaskatt með kílómetragjaldi samkv. ökumæli árið 1968, að af því hlyti að leiða, að þær langferðabifreiðar og flutningabifreiðar, sem lengsta vegalengd aka árlega, mundu greiða hærri þungaskatt en áður. Verður að líta svo á, að þetta sé hliðstætt hjá dísilbifreiðum og benzínbílum, sem greiða gjald til Vegasjóðs fyrir hvern benzínlítra, sem bifreiðin notar, sem er í beinu sambandi við ekna vegalengd. Má benda á, að telja verður, að með vegalögum frá 1963 hafi sú stefna verið mörkuð, að vegagerð skyldi að langmestu leyti kostuð af tekjum af umferðinni og gjöldum, sem lögð skyldu á umferðina, þannig að bifreiðar greiddu raunverulega mismunandi mikið miðað við mismunandi mikil not þeirra af vegunum. Liggur því nærri að líta á eldra þungaskattsfyrirkomulagið frekar sem undantekningu frá hinni almennu reglu en hina raunverulegu reglu. Ekki hefur mér nú komið til hugar önnur hentugri regla til tekjuöflunar fyrir Vegasjóð en sú, sem nú er notuð. Með fyrirhuguðum afslætti fyrir þær bifreiðar, sem mest er ekið, verður þungaskatturinn ekki eins tilfinnanlegur og margir hefðu búizt við.