16.12.1970
Neðri deild: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

161. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem segir í grg. með frv. þessu um breytingar á tollskránni, er hér fyrst og fremst um að ræða eftirhreytur af endurskoðun þeirri, sem fór fram á tollskránni um síðustu áramót í sambandi við aðild Íslands að EFTA. Það var þá vitanlegt, að ýmis vafaatriði voru þá enn óljós og síðan hefur komið fram, að nokkrar vörutegundir falla undir EFTA-ákvæðin, sem ekki lá þá ljóst fyrir, að féllu það. Sumar vörur eru framleiddar í landinu, sem þá ekki var í rauninni vitað um, að framleiddar væru eða sumt af því komið til síðar, og allt leiðir þetta af sér, að það er óumflýjanlegt að gera breytingar varðandi viss atriði tollskrárinnar. Það var þá vitað að vísu um veigamestu atriðin í þessu sambandi svo sem tvöfalt gler og rafmagnseldavélar, en jafnvel haft þá í huga að leysa það mál með því að leggja á sérstakt tollvörugjald til þess að vega hér upp á móti og ná sama árangri og hægt er að ná með lækkun tolla.

En þar sem ljóst var, að það þurfti að gera allvíðtækar aðrar breytingar af þeim ástæðum, sem ég gat um, þá var horfið að því ráði að undirbúa sérstakt frv. um breytingar á tollskránni, þar sem auk EFTA-varanna voru teknar inn nokkrar breytingar, sem efnislega eru ekki veigamiklar, en eru til samræmis við aðrar breytingar, sem þá voru gerðar á tollskránni. Talið er, að þetta muni samtals, eins og segir í grg., geta valdið ríkissjóði tekjutapi, sem nemi allt að 26 millj. kr. miðað við innflutning s. l. árs, ef allar þessar vörur færast yfir til EFTA-landa, sem að sjálfsögðu er mjög óvíst og ólíklegt, að þær geri, þannig að tekjutapið verði nokkru minna. En jafnhliða þessum breytingum, sem gert er ráð fyrir að gera í þessu sambandi og valda nokkrum tollalækkunum á framleiðslu t. d. rafmagnseldavélum, tvöföldu gleri, lömpum og lýsingartækjum, þá eru sett sérstök ákvæði í heimildargr., sem gera mögulegt að endurgreiða hluta af efnivörum í innlenda framleiðsluvöru af þessu tagi, vegna þess að í mörgum tilfellum er þar um að ræða efnivöru, sem hægt er að nota til margra annarra þarfa, og verður því að hafa þessa endurgreiðsluaðferð. Er hér um fullt samræmi að ræða miðað við þá grundvallarreglu, sem fylgt var við tollskrárbreytinguna nú í byrjun ársins, þ. e. að þar sem um er að ræða 30% lækkun á hinni fullunnu vöru, þá verður lækkunin 50% á hráefnum.

Í hv. Ed. var tollskráin tekin til allítarlegrar athugunar og samráð haft við hv. fjhn. þessarar d., og þar voru gerðar á frv. töluverðar breytingar. Sumt af því var gert í beinu samráði við rn., en annað ekki. Ég skal ekkert dæma um þessar breytingar. Þær eru ekki mjög veigamiklar og valda ekki, að því er bezt verður séð, neinu verulegu tekjutapi. Ég hefði þó talið, að það hefði verið æskilegt að takmarka mjög þær breytingar, sem gerðar yrðu, af því að ég lýsti því yfir þá, að miðað við, að þetta yrði afgreitt með þeim hraða, sem æskilegt væri, þá væri það mjög óheppilegt að fara að hreyfa mikið við tollskránni almennt, þar sem erfitt væri að takmarka þær óskir, sem menn kynnu þá að hafa uppi um breytingar. En engu að síður voru þessar breytingar gerðar, og ber að taka það fram, að um það var alger samstaða í hv. Ed., og sá ég því ekki ástæðu til þess að vera að fetta fingur út í þær breytingar, þar sem þær höfðu ekki efnislega mjög mikla þýðingu.

Ein breytingin var þess eðlis að fella niður gr., sem gerði ráð fyrir, að með hliðsjón af verðstöðvunarlögunum væri engu að síður heimilt að halda álagningu óbreyttri að krónutölu, þó að um verulega lækkun tolla væri að ræða. Það varð samkomulag um það, og ég lýsti því þegar yfir við 1. umr. málsins, að ef mönnum sýndist, að óheppilegt væri að hafa þessa heimild, sem að sjálfsögðu er aðeins til bráðabirgða, þá væri það mér algerlega að meinfangalausu, að hún væri felld niður, og var þar samkomulag um, að það yrði gert.

En vegna þeirra breytinga, sem gerðar voru í Ed. og af því að þetta var gert af nokkurri skyndingu — og ber að vísu að þakka það, að hv. Ed. skyldi svo fljótt afgreiða málið frá sér, því að ég hafði ekki mikla von um það, að það yrði auðið að afgreiða það fyrir áramót, og sannast sagna treysti ég mér ekki til að fara fram á það við hv. Ed., að hún gerði það, en n. vann engu að síður með þessum hraða eru ýmsir tæknilegir gallar á þessum brtt., sem samþykktar voru í hv. Ed. Vildi ég því beina því til fjhn. þessarar hv. d., að hún hefði samráð við deildarstjóra tollamála í fjmrn. og færi með honum yfir þær breytingar, sem samþykktar voru á frv. í Ed., til þess að það a. m. k. verði ótvírætt, að það séu ekki gallar tolltæknilega séð á þeim breytingum, sem þar hafa verið gerðar. Það kynni að koma í ljós, að svo væri, þar sem þetta hefur ekki verið íhugað nægilega vel, og undir öllum kringumstæðum veit ég, að hv. þdm. eru sammála um, að ekki má það gerast, að breytingar séu samþykktar það athuganalítið, að ekki sé alveg ótvírætt, hvað við sé átt, og það leiði til vandræða, þegar til túlkunar kemur.

Miðað hins vegar við það, að fjhn. þessarar hv. d. mun hafa verið með í ráðum í sambandi við breytingarnar í Ed., þá vildi ég leyfa mér að vænta þess, að hv. n. sæi sér fært að afgreiða málið með þeim hraða, að það yrði unnt að lögfesta þessar breytingar á tollskránni fyrir áramót, en það er af mörgum ástæðum mjög æskilegt og raunar nauðsynlegt, að það gæti orðið. Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð, en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.