09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í D-deild Alþingistíðinda. (4580)

356. mál, þungaskattur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi var nú eftir atvikum ánægður með svörin, að mér skildist, miðað við það, að tæplega væri unnt að gefa tæmandi svör við öllu, sem spurt var um, vegna þess hve stutt væri liðið síðan þessi nýja regla var upp tekin.

Hv. fyrirspyrjandi talaði um afsláttinn og taldi nauðsynlegt að endurskoða reglugerð í því sambandi. Þess skal getið, að það verður sett ný reglugerð, þar sem afslátturinn verður ákveðinn. Og afslátturinn verður hafður eins hár og mögulegt er. Hv. fyrirspyrjandi veit það, að Vegasjóður þarf að fá ákveðna upphæð í tekjur af þungaskatti, sem ákveðið er í vegáætlun, til þess að vegáætlunin verði ekki með allt of miklum halla. Og það standa vonir til, að seint í þessum mánuði eða í byrjun næsta mánaðar megi gefa út reglugerð og þá verði enn ljósara en nú, hversu afslátturinn megi verða mikill til þess þó að Vegasjóður fái þær tekjur, sem reiknað hefur verið með. Og þegar þessi regla var upp tekin á miðju ári eða upp úr miðju s. l. ári, átti að miða við það og var reynt að miða við það, að samkv. nýju reglunni yrðu tekjurnar ekki minni og ekki heldur neitt verulega meiri en hefði orðið með gömlu reglunni. Og þarna var vitanlega ekki unnt að spá nákvæmlega fyrir fram upp á 100 þús. kr. eða millj., því að þungaskatturinn, þegar hann er tekinn eftir ökumæli, fer mikið eftir atvinnuástandinu í landinu. Eins og ég áðan sagði, var atvinnuástandið gott á s. l. ári og ekki sízt seinni hluta ársins við ýmsar framkvæmdir, og var því um mikinn akstur bifreiða að ræða. Víð skulum vona, að svo verði áfram, að það verði atvinna fyrir þessar bifreiðar, sem eiga að borga þungaskatt. Það mun gefa Vegasjóði meiri tekjur.

Ég skal viðurkenna, að það er slæmt, ef héruðum verður mismunað með þessari aðferð. En ég held, að það verði aldrei hjá því komizt, að þeir, sem fara langar leiðir og flytja vörurnar langar leiðir með bifreiðum, borgi verulega meira fyrir þær en þeir, sem ekki þurfa að aka nema stutta leið. Og þótt við viljum gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að minnka aðstöðumuninn, eins og hann er kallaður, þá held ég, að það verði alltaf útilokað að gera það að fullu.

Áreiðanlega hafa hv. alþm. gert sér grein fyrir því, hvað af þessu mundi leiða, þegar þungaskatturinn var ákveðinn með þessum hætti og heimild var gefin til þess að setja ökumæla í hinar stærri vörubifreiðar og fólksbifreiðar. Það er enginn vafi á því, að alþm. hafa allir gert sér grein fyrir því, hvað af þessu kynni að leiða. En það er gott að geta gefið afslátt til þeirra, sem aka mest. Þungaskatturinn samkv. gömlu reglunni var miðaður við 30 þús. km árlegan akstur, og þess vegna er nú ákveðið, að þegar menn hafa ekið 30 þús. km, þá fái þeir afslátt fyrir það, sem umfram er. Þess njóta fyrst og fremst langferðabifreiðar og vöruflutningabifreiðar, sem aka mikið árlega, en þær eru margar, sem aka 50 og 60 þús. km, og sumar kannske meira.

Ég sé ekki, að það sé nokkur aðstaða í sambandi við Vegasjóðinn og framkvæmd vegamálanna að jafna það, sem kallað er aðstöðumunur, með öðrum hætti en þeim, sem hægt er að gera með fyrrnefndum afslætti, og afslátturinn verður hafður eins hár og mögulegt er. En það verður að hugsa um það að ná þeim tekjum, sem reiknað er með í vegáætluninni, og við skutum vona, að þær verði ríflegar og allmiklu meiri, til þess að unnt verði að veita þeim, sem versta hafa aðstöðuna, því meiri afslátt.