09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í D-deild Alþingistíðinda. (4586)

226. mál, læknisþjónusta í héruðum

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa svarað fsp. minni á þskj. 416, þó að svarið væri raunar á annan veg en ég hefði vonazt eftir, því að ég hafði gert mér von um það, að nefndin hefði lokið till. sínum og ráðh. gæti skýrt í meginatriðum frá efni þeirra. Það voru skýlaus fyrirmæli Alþ., þegar till. var samþ. hinn 22. apríl, að till. yrði skilað eigi síðar en 1. marz, og sá tími er liðinn.

Ég gat um það áðan í ræðu minni, að það hefði dregizt mjög lengi að skipa nefndina, og hæstv. ráðh. gaf á því sömu skýringuna og hann gaf í haust, sem ég hef enga ástæðu til þess að draga í efa, að nefndin hefði ekki verið skipuð fyrr vegna þess, að ekki hefðu fengizt tilnefningar á nm., fyrr en liðnir voru nærri sex mánuðir frá því, að tilnefna átti í nefndina „nú þegar“. Ég verð að harma það, að slíkur seinagangur skuli hafa orðið á tilnefningunum og að þeim aðilum, sem áttu að tilnefna menn í nefndina, skuli ekki hafa tekizt að hafa hraðari hendur en þarna hefur reynzt. Eigi að síður, þó að nefndin væri ekki skipuð fyrr en 12. okt., hefur hún nú haft allmarga mánuði til þess að starfa. Og ég vil mega vænta þess, að fulltrúar þessara aðila, sem tilnefndu menn í nefndina, hafi tök á því að bæta dráttinn, sem varð á tilnefningunni, með því að hraða því meira störfum. Og hræddur er ég um, að mörgum þeim, sem eiga við læknisleysi að stríða víðs vegar um landið, þyki hér vera um nokkuð mikið tómlæti að ræða, þó að á því séu kannske einhverjar eðlilegar skýringar.

Hæstv. ráðh. gat um það, að nefndin hefði endurskoðað ýmis lög um heilbrigðismál, sem í gildi eru, og nefndi þau lög. Auðvitað var til þess ætlazt, að nefndin endurskoðaði alla þessa lagabálka. En ég hef gert ráð fyrir því, að hún mundi gera meira en að koma fram með breytingar á lögum, að hún mundi líka koma fram með aðrar till., sem ekki byggðust kannske fyrst og fremst á lögum, því að þetta mál verður e. t. v. ekki fyllilega leyst með löggjöf, heldur með skipulagningu. En það held ég, að sé margra manna mál, að þeim aðilum, sem hér er um að ræða, læknasamtökum og öðrum, sem tilnefnt hafa í nefndina, beri nokkur skylda til þess að ráða fram úr þessu máli á sómasamlegan hátt og að það hafi þegar dregizt of lengi. Ég er ekki viss um, að lagabreytingar nægi til þess, að það verði gert á viðunandi hátt, og held, að fleira þurfi til að koma en lagabreytingar.

Um þetta hef ég svo ekki fleira að segja og vil aðeins beina þeirri ósk til hæstv. ráðh., að hann geri það, sem í hans valdi stendur, til þess að nefndin hraði störfum og skili áliti og till., áður en þessu þingi verður slitið, því að við þessa nefnd og störf hennar, eins og hún er samsett, eru miklar vonir bundnar.