09.03.1971
Sameinað þing: 32. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í D-deild Alþingistíðinda. (4588)

226. mál, læknisþjónusta í héruðum

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim tveimur hv. alþm., sem tekið hafa til máls um fsp., fyrirspyrjanda og hv. 2. þm. Austf. Ég hygg, að við getum allir verið á einu máli um það, að æskilegra hefði verið, að þetta nál. lægi nú þegar fyrir, og ég hef fulla ástæðu til þess að ætla og veit það reyndar af sambandi mínu við nefndina, að hún hefur setið á allmörgum fundum og rætt málið við marga þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, og unnið mjög vel að mínu viti að þessu máli. Um einstakar till. hennar eða hvað í hennar pokahorni endanlega verður, get ég ekki á þessu stigi málsins sagt, fyrr en nefndin hefur lokið störfum. En ég hygg þó, að það sjái allir, að rn. verður ekki með neinum rétti sakað um þennan seinagang, sem að meginhluta til er seinagangurinn á því að fá tilnefnda menn frá þeim aðilum, sem Alþ. hefur uppálagt rn. að ná fulltrúum frá. Þar skapaðist bil, þegar annars hefði mátt vinna töluvert mikið. En ég tek einarðlega undir óskir þessara þm. beggja og vonast til, að till. nefndarinnar liggi fyrir, áður en þessu Alþ. lýkur.